Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Fleiri leita hjálpar á geðdeild Landspítalans

Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Óvenju mikil aðsókn er að geðdeild Landspítalans. Forstöðumaður geðþjónustu Landspítalans telur líklegt að rekja megi það til kórónuveirufaraldursins. Forstjóri heilsugæslunnar óttast að fleiri þurfi aðstoð á næsta ári þegar því er spáð að margir verði án vinnu. 

Þeim fækkaði sem leituðu í geðþjónustu Landspítalans þegar kórónuveirusmit voru hér í hámarki en nú hefur dæmið snúist við.

„Við finnum alveg fyrir því að það eru fleiri komur en við erum vön á þessum árstíma. Þegar það er heimsfaraldur þá er náttúrulega bara mjög margt sem getur komið geðrænu ástandi í ójafnvægi, bara það að passa upp á sóttvarnir,“ segir Nanna Briem, forstöðumaður geðþjónustu Landspítalans. 

Það getur verið margt kvíðvænlegt við að fara út í búð. Hversu oft á maður að spritta sig og var búið að spritta innkaupakerrinu? Hvernig er svo með allar vörurnar sem ég ætla að kaupa? Er óhætt að koma við einhvern poka af eplum? Er einhver nýbúinn á hósta á þennan poka? Rek ég óvart fingurna í andlitið? Þetta eru endalausar spurningar.

„Á sama tíma er stöðugt verið að minna okkur á að þetta er hættulegt ástand. Það er stöðugt verið að segja okkur frá hversu mörg tilfelli hafa greinst. En það er auðvitað ekkert ólíklegt að þetta muni hafa áhrif ekki bara á einstaklinga sem hingað til hafa sótt þjónustu til okkar heldur bara á alla,“ segir Nanna.

Þá er líka aukin aðsókn í geðþjónustu hjá heilsugæslunni. 

„Við höfum fengið mikinn stuðning hjá stjórnvöldum að bæta í þar. Þetta eru nokkur hundruð milljónir sem við erum að leggja í geðheilbrigðisþjónustuna til viðbótar núna, bara innan Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, fyrir næsta ár,“ segir Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

„Svo erum við núna í þeirri stöðu að þetta er að dragast svolítið á langinn þessar reglur sem við þurfum að fara eftir, þessi vá sem er yfirvofandi. Þetta getur valdið hjá mörgum langtímastreitu,“ segir Nanna.

„En síðan búumst við auðvitað við því á næsta ári þegar atvinnuleysi og efnahagurinn er ekki eins og við áttum von á eða það geti orðið einhvers konar efnahagslegar krísur, þá geti fólk þurft að leita meira,“ segir Óskar.