Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ferðir Herjólfs þriðja alveg klárt verkfallsbrot

15.07.2020 - 11:11
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Jónas Garðarsson, formaður samninganefndar Sjómannafélags Íslands, segir að sigling Herjólfs þriðja í dag sé klárt verkfallsbrot. Undirmenn um borð í Herjólfi eru í verkfalli í dag, sem er seinni dagur verkfalls en þriðja vinnustöðvun um borð í Herjólfi hefur verið boðuð eftir sex daga.

 Starfsmenn sem ekki eru í Sjómannafélagi Íslands sigla Herjólfi þriðja fjórar ferðir til Vestmannaeyja í dag.  Jónas segir að það sé verkfallsbrot.

„Að sigla hinu skipi útgerðarinnar sem er í eigu ríkisins er verkfallsbrot alveg klárt. Það er ekki gott innlegg í þessa deilu.“  

Jónas segir að það skipti engu máli hvað skipið heitir það sé verkfall um starfsemina hjá fyrirtækinu og það breyti engu að þeir sem sigli Herjólfi þriðja séu ekki í Sjómannafélaginu.

„Þeir geta ekki mannað skipið nema með einhverjum  þeir eru ekki nógu margir aðrir starfsmenn Herjólfs til að sigla skipinu sem eru utan við sjómannafélag Íslands.“