Feikna úrkoma framundan

15.07.2020 - 12:56
Mynd: Veður.is / Veður.is
Seinni partinn í dag mun rigna mikið á vesturhelmingi landsins. Gul viðvörun er í gildi á miðhálendinu síðdegis og í kvöld. Haraldur Eiríksson, veðurfræðingur, greindi frá þessu í hádegisfréttum.

Áfram verður mikil rigning á Vestfjörðum og Norðvesturlandi á morgun og gul viðvörun í gildi á Ströndum, Norðurlandi vestra, Vestfjörðum og á Breiðafirði.

Er hætt við vatnavöxtum og að ár verði torfærar og jafnvel skriðuföllum? „Já, það er mjög líklegt að það gerist í svona mikilli og langvarandi úrkomu.“ 

Eru enn fannir í fjöllum?  „Það hefur náttúrulega mikið til tekið upp, en það eru enn miklar fyrningar eftir veturinn þannig að það er sjálfsagt eitthvað eftir.“ 

Kólnar á föstudag

„Norðanáttin dregur inn kalt loft þannig að það er viðbúið að á föstudaginn snjói til fjalla norðvestanlands og einnig á Norðausturlandi,“ sagði Haraldur.

 

Valgerður Árnadóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi