Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Ákvörðun Herjólfs „hleypir illu blóði í fólk“

15.07.2020 - 18:59
Mynd: Bragi Valgeirsson / Bragi Valgeirsson
Gamli Herjólfur sigldi til og frá Vestmannaeyjum í dag mannaður starfsfólki sem ekki er í Sjómannafélagi Íslands og þar með ekki í verkfalli. Formaður Sjómannafélagsins segir félagsmenn furðu lostna og að ákvörðunin hleypi illu blóði í fólk.

Kjaraviðræður Sjómannafélags Íslands og stjórnar Herjólfs hafa ekki skilað árangri. Annað verkfall hluta áhafnar Herjólfs, tveggja sólarhringa vinnustöðvun, hófst á miðnætti aðfaranótt þriðjudags. Ferðir Herjólfs milli lands og eyja hafa legið niðri á meðan verkfalli stendur en í dag sigldi Gamli Herjólfur mannaður starfsfólki sem ekki er í Sjómannafélagi Íslands. Fyrsta ferð dagsins tafðist því vélstjóri gekk frá borði og neitaði að sigla til að sýna kjarabaráttunni samstöðu, aðrar ferðir voru á áætlun.

Guðbjartur Ellert Jónsson, framkvæmdastjóri Herjólfs telur ekki að verkfallsbrot hafi verið framið. 

„Sjómannafélag Íslands er með lögmæta verkfallsboðun og við virðum það en á meðan við getum siglt á öðrum starfsmönnum þá gerum við það. Við erum að reyna að verja það að hér sé órofin sigling á milli lands og eyja til að tryggja hér bæði ferðir fólks á milli og eins líka að við getum komið hér aðföngum til og frá eyjunni.

Bergur Þorkelsson, formaður Sjómannafélags Íslands, segir ákvörðunina aftur á móti hreint verkfallsbrot.
„Við erum bara furðu lostnir. Mér finnst þetta ótrúleg ákvörðun hjá félaginu að gera þetta í staðinn fyrir að koma að samningaborðinu og leysa málið. Þetta hleypir bara illu blóði í fólk. Þarna eru allavega þrír hásetar sem eru að ganga í störf okkar félagsmanna þannig að þetta er klárt verkfallsbrot.“

Til greina komi að kæra ákvörðunina til Félagsdóms sem verði skoðað með lögmanni félagsins á næstu dögum.

Vonast til að ná saman en útlitið ekki bjart

Kröfur sjómannafélagsins eru meðal annars að stytta vinnutíma, minnka vinnuskyldu og fjölga þernum um borð. Frekari fundir hafa ekki verið boðaðir í deilunni. Guðbjartur Ellert segir að ekki hafi verið ákveðið hvort gamli Herjólfur sigli einnig í þriðju verkfallsboðun Sjómannafélagsins.

„Við tökum einn dag í einu og verðum bara einhvern veginn að komast í gegnum hann. Maður svo sem vonast alltaf til þess þegar maður vaknar á morgnana að það rofi eitthvað til í þessu en meðan að kröfurnar, svona langt er á milli, að þá er svo sem útlitið ekkert bjart í þeim efnum.“

Bergur segir að Sjómannafélagið haldi sínu striki. Ákvarðanir um hertar aðgerðir hafa ekki verið teknar.

„Aðalatriðið er að fá þetta fólk að samningaborðinu og fá það til að ræða við okkur. Deilan leysist þar en ekki með svona vinnubrögðum. Við höldum okkar striki. Það eru boðaðar aðgerðir í næstu viku, þá stendur verkfallið í þrjá daga, og við verðum viðbúnir svona fíflaskap. En við skulum bara sjá.“