Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

15% fleiri tilkynningar um heimilisofbeldi

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson
Í júní skráði embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu 706 hegningarlagabrot. Það voru færri brot en í maí og flest brotin voru þjófnaðir. Það sem af er ári hafa tilkynningar um hegningarlagabrot verið um 5% færri en að meðaltali undanfarinna þriggja ára. Tilkynningum um heimilisofbeldi hefur fjölgað um 15% á milli ára og fjöldi þeirra ungmenna sem lögregla leitaði var talsvert yfir meðaltali.

Þetta kemur fram í afbrotatölfræði lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu fyrir júní.

277 þjófnaðir voru tilkynntir til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í júní, þar af voru 76 innbrot, sem er talsvert meira en í maí þegar tilkynnt var um 46 innbrot. Flest innbrotanna í júní voru inn á heimili og næstflest í fyrirtæki. Það sem af er ári hafa borist um 14% færri tilkynningar um innbrot en á sama tímabili undanfarin þrjú ár.

Lögreglu bárust 116 tilkynningar um ofbeldisbrot í síðasta mánuði sem var fjölgun frá maí þegar tilkynningar voru 103. Fimm tilvik voru um ofbeldi gagnvart lögreglumanni og fjórum sinnum var lögreglumanni hótað ofbeldi. Þetta eru færri tilvik en að meðaltali undanfarin ár. 

25 ungmenna leitað

14 tilkynningar bárust um kynferðisbrot, sem eru þrisvar sinnum færri tilkynningar en í júní í fyrra þegar þær voru 42.  68 tilkynningar bárust um heimilisofbeldi. Það sem af er ári hafa borist um 15% fleiri tilkynningar um heimilisofbeld en á sama tímabili undanfarin þrjú ár. Þá bárust lögreglu 25 beiðnir um leit að ungmennum, sem er mesti fjöldi sem verið hefur í einum mánuði undanfarið ár.

128 tilkynningar bárust um eignaspjöll sem er talsvert meira en meðaltalið segir til um, tilkynnt var um 30 stolin ökutæki og 85 fíkniefnabrot, en slíkum brotum fækkar á milli mánaða.

Þá voru skráð 850 umferðarlagabrot sem er nokkuð yfir meðaltali og 210 brot þar sem ökumenn voru grunaðir um að hafa ekið undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna.

 

 

 

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir