Þráði alltaf að eignast fjölskyldu

Mynd: VH / RÚV

Þráði alltaf að eignast fjölskyldu

14.07.2020 - 13:09

Höfundar

„Ég held að ástæðan fyrir þvi að ég sé bara jafnvel glaðari en næsti maður er að ég vildi alltaf fjölskyldu. Þegar maður var að koma út úr skápnum þarna fyrir 22 árum þá var það ekkert sjálfgefið. Ég mátti ekkert giftast samkvæmt lögum og ég mátti ekki ættleiða barn,” segir fjölmiðlamaðurinn Sindri Sindrason.

Sindri var gestur Viktoríu Hermannsdóttur í þættinum Segðu mér á Rás 1 í morgun. Sindri hefur starfað á Stöð 2 um árabil og segir það alltaf hafa verið draum sinn að lesa fréttir í sjónvarpi. 

Las fréttir fyrir foreldra sína
„Ég var óþolandi krakki, ég skar út pappakassa og þegar fréttatíminn byrjaði þá lét ég mömmu og pabba horfa á mig inn í kassanum, hliðina á sjónvarpinu. Það var eins gott þau horfðu á mig, ekki sjónvarpið.”

Sindri er alinn upp í Fellahverfi í Breiðholti. „Við fluttum þangað þegar ég var fimm ára og ég bjó þar, í Unfufelli til 18 ára aldurs. Var í Fellaskóla og svo FB.” Fellahverfið var oft talið villt á þessum árum en Sindri segir það alls ekki hafa verið sína reynslu. Breiðholtið sé fjölskylduhverfi sem gott sé að búa í. 
„Ég hafði ekki hugmynd um framan af að ég byggi í umdeildu hverfi. Þetta er enn þá umdeilt en þetta er mikið fjölskylduhverfi. Tengdaforeldrar mínir búa enn þarna af því maðurinn minn er líka úr Fellunum. Þetta er bara líflegt hverfi sko. Það er meira af útlendingum í dag sem gerir hverfið enn skemmtilegra,” segir Sindri. 

Var hræddur við höfnunina
Sindri segist alltaf hafa þráð fjölskyldu. Hann sé íhaldsamur að upplagi og það hafi ekki endilega verið auðvelt að koma út úr skápnum. „Ég var skíthræddur við þetta, maður er auðvitað hræddur við höfnunina meðal foreldra og vina,”  segir hann en áhyggjurnar voru algjörlega af ástæðulausu þar sem allir tóku því vel þegar hann kom út úr skápnum. 

Kynntust sem unglingar
Sindri og eiginmaður hans kynntust sem unglingar. „Hann fór í Verzló, ég fór í FB, síðan áttum við sitthvoran vinahópinn, sem tengdust. Þannig við erum búnir að vera vinir frá því við vorum 16 ára og mjög góðir vinir frá tuttugu ára,” segir Sindri hlæjandi. „Það hefur bara gengið eins og í sögu og ég vona það haldi áfram,” segir Sindri og tekur fram að hann sé mjög íhaldssamur. „Ég er ofboðslega íhaldssamur, ég finn mér bara einn mann, svo finn ég mér eina vinnu, ég er mjög einfaldur maður. Ég held að það sé líka bara ástæðan fyrir því að ég sé bara glaður maður, mér finnst bara allt vera fínt,” segir Sindri sem vill siður vera að flækja hlutina.

Sindri og Albert eiginmaður hans voru fyrsta samkynhneigða parið til þess að ættleiða barn. Fyrst gerðust þeir fósturforeldrar en fengu svo fljótlega að ættleiða dóttur sína Emilíu sem var þriggja og hálfs árs þegar hún kom til þeirra. Þeir höfðu hugsað margar leiðir til þess að láta draum sinn um að verða foreldrar verða að veruleika, meðal annars höfðu þeir íhugað staðgöngumæðrun.

Höfðu safnað fyrir staðgöngumæðrun
„Okkur langaði í barn. Þetta er bæði umdeild og ólöglegt en við vorum búnir að safna fyrir staðgöngumæðrun. Það er ekkert hlaupið að því að eignast barn og sérstaklega ef þú ert karlmaður,” segir Sindri en þeir höfðu líka íhugað ættleiðingu að utan en það reyndist þeim nánast ógerlegt.  

„Ættleiðingar frá útlöndum eru þannig að þau lönd sem að leyfa þetta, þau þurfa ekkert að senda börnin úr landi. En þau lönd sem eru að senda börn úr landi vilja ekki að þau fari til samkynhneigðra.” 

Gæti ekki elskað hana meira

Sindri segir Emilíu hafa átt hjarta þeirra frá fyrstu stundu og reyndar sé hann þannig að hann vilji helst ofvernda hana. „Algjörlega, ég veit ekki hvernig ég gæti elskað barnið mitt meira enda er maður alltaf eins og allir foreldrar þekkja: skíthræddur.” 

Hægt er að hlusta á viðtalið við Sindra í heild sinni hér, í spilaranum hér að ofan og í öðrum hlaðvarpsveitum.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Fann ástina aftur eftir erfiðan skilnað

Leiklist

„Þetta áfall breytti mér“

Menningarefni

„Svona sársauki getur tætt mann í sundur og eyðilagt“