Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Þjóðhátíð í Eyjum aflýst

Mynd með færslu
 Mynd: Sighvatur Jónsson - RÚV
Þjóðhátíðarnefnd í Vestmannaeyjum hefur ákveðið að aflýsa hátíðinni í ár. ÍBV ætlar ekki að standa fyrir „einum einasta viðburði um verslunarmannahelgina, hvort um sé að ræða dansleiki, tónleika, brennu, brekkusöng eða hvað eina,“ segir í tilkynningu.

Með því að aflýsa hátíðinni ár vill Eyjafólk sýna ábyrgð og taka af allan vafa um að ÍBV ætli að standa fyrir viðburði sem kann að brjóta gegn fjöldatakmörkunum.

Unnið er að því að endurgreiða þeim sem þegar hafa keypt sér miða á Þjóðhátíð. Í tilkynningunni segir að unnið sé að því að búa til endurgreiðslukerfi. Það verði kynnt þegar endurgreiðslur hefjast. Það gerist í síðasta lagi í lok þessa mánaðar.

Þjóðhátíðarnefnd ætlar að bjóða fólki sem á miða þrjá kosti. Hægt verður að fá miðann endurgreiddan, hægt er að styrkja ÍBV um andvirði miðans og svo er hægt að flytja miðann svo hann gildi fyrir Þjóðhátíð að ári.

Reiknuðu með hátíð fyrir 6.000 manns

Áður en ákvörðun var tekin um að aflýsa hátíðinni var Þjóðhátíðarnefnd búin að stilla upp sviðsmynd í takti við sóttvarnareglur. Halda átti ball fyrir tvö þúsund manns í Herjólfsdal og eina kvöldvöku þar sem dalnum yrði skipt upp í þrjú tvö þúsund manna sóttvarnasvæði.

Þjóðhátíð ár hvert er afar mikilvæg tekjulind fyrir íþróttafélagið í Vestmannaeyjum. Í tilkynningunni í dag er hátíðin sögð ein ástæða þess að hægt sé að halda úti öflugu stafi í litlu bæjarfélagi. ÍBV vill þess vegna bjóða fólki að kaupa miða á hátíðina, þó hún verði ekki haldin, gagngert til þess að styrkja ÍBV.

Þjóðhátíðarlagið frumflutt á föstudag

Þrátt fyrir að hátíðinni hefur verið aflýst kemur út þjóðhátíðarlag venju samkvæmt. Ingólfur og Guðmundur Þórarinssynir, sá fyrri oft kenndur við hljómsveitina Veðurguðina, flytja lagið í ár. Ingólfur hefur leitt brekkusönginn í Herjólfsdal síðustu ár.

Lagið heitir Takk fyrir mig. Það verður frumflutt á útvarpsstöðinni FM957 á föstudag.