Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Tekist á um lokun fangelsisins á Akureyri

Mynd: Samsett mynd / RÚV
Lokun fangelsisins á Akureyri hefur mætt mikilli andstöðu meðal bæjaryfirvalda á AKureyri, innan lögreglunnar og meðal fangavarða. Dómsmálaráðherra átti fund með yfirvöldum á Akureyri í dag. Lögregluembættið verður mögulega styrkt til að taka við verkefnum fangavarða.

Bæjarfulltrúar á Akureyri hafa lýst yfir óánægju með ákvörðun dómsmálaráðherra og sögðu eftir fundinn í dag samráðsleysi hafa einkennt ákvörðunina.

 

 

Stangast á við yfirlýsta stefnu

Félag fangavarða og lögreglufélög Eyfirðinga og Þingeyinga hafa einnig mótmælt ákvörðuninni. Í yfirlýsingu Félags fangavarða kemur meðal annars  fram að lokunin stangist á við yfirlýsta stefnu stjórnvalda um að fjölga störfum á landsbyggðinni, en með henni tapist 6 stöðugildi á landsbyggðinni. Fangaverðir séu sérhæfð stétt og mesta þekkingin komifrá starfsreynslu. Áratugareynsla muni tapast við þessar aðgerðir, ásamt verðmætri tengingu við lögregluna.

Dómsmálaráðherra fundaði í dag með hlutaðeigandi á Akureyri í dag.

Ertu að íhuga að hætta við þessa ákvörðun?

„Ég kom hér í dag til að hlusta á fólk, og heyra hvað það hefur að segja og tek það með mér til baka. Það er mjög mikilvægt að halda uppi þjónustustigi lögreglunnar en á sama tíma áttað sig á því hvernig við getum nítt fjármuni sem best í kerfinu,  og þá fangelsismálakerfinu meðal annars. Við þurfum líka að ráðast á þessa boðunarlista sem bíða afplánunar, þannig að ég þarf auðvitað að skoða þetta.“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra.

Páley Borgþórsdóttir, nýskipaður lögreglustjóri á Norðurlandi eystra lýsir yfir þungum áhyggjum með þessa ákvörðun.

„Hún leggst ekki vel í mig. Þetta getur stórskaðað löggæslu hér á svæðinu, og við höfum af þessu verulegar áhyggjur og höfum lýst því yfir við dómsmálaráðherra“ segir Páley.

Kallar á aukinn mannskap

Fangaverðir í fangelsinu á Akureyri hafa fram til þessa sinnt gæslu fanga í fangageymslu lögreglunnar. Hverfi þeir á brott þurfa lögreglumenn að sinna fangavörslunni. Það kallar á aukinn mannskap.

„Annars endum við uppi með það að við erum með alltof fáa menn í útkallsliðinu okkar, sem er algjörlega óboðlegt á svona stóru svæði. Starfstöðin hér á Akureyri er stuðningur við aðrar starfsstöðvar. Það eru fimm starfsstöðvar í þessu umdæmi, og þar er ekki sólarhringsvakt. Þessi stöð þarf að vera vel mönnuð til að geta sinnt stuðningi þar. Auk þess sem hér eru 20 þúsund íbúar á þessu svæði svo það þarf að vera góð löggæsla.“ segir Páley.

Ráðherra ætlar að kanna hvaða möguleikar séu í stöðunni gagnvart lögreglunni á Norðurlandi eystra.

„Það var viðbúið að það þyrfti að skoða það að styrkja embættið hér ef fangelsið færi. Ég hef beint því til Ríkislögreglustjóra að leggja mat á þann viðbótarkostnað sem mun lenda á þessu embætti og mun tryggja það að þetta embætti hér geti sinnt þeirri þjónustu sem þau þurfa.“

En er þá ekki sparnaðurinn farinn?

Við getum nýtt fleiri fangapláss með því að loka fangelsinu og getum getum þá vonandi styrkt lögregluna hér á móti.“ segir Áslaug.

Opinber störf ekki endilega staðbundin

Ríkisstjórnin hefur það á stefnuskrá sinni að fjölga opinberum störfum utan höfuðborgarsvæðisins. Áslaug segir að með lokun fangelsisins á Akureyri færist störf á Suðurland, en ekki á höfuðborgarsvæðið. Opinber störf þurfi ekki að vera bundin við ákveðna staði.

„Það er ekki síst rafræn stjórnsýsla sem gera það að verkum að hægt er að sinna ýmsum verkefnum meðal annars hér eða annars staðar úti á landi þó að sótt sé í þjónustuna á höfuðborgarsvæðinu.“ segir Áslaug.