Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Stærsti skjálftinn var 3,6

14.07.2020 - 11:03
Mynd með færslu
 Mynd: Ómar Ragnarsson
Jarðskjálfti sem reið yfir í suðaustanverðri Bárðarbunguöskjunni rétt fyrir klukkan eitt í nótt var öllu stærri en fyrst var talið. Hann var metinn 3,2 í fyrstu en frekari útreikningar náttúruvársérfræðinga Veðurstofunnar leiddu í ljós að hann var 3,6 að stærð. Rúmlega klukkutíma áður var skjálfti 3,0 á svipuðum stað. Nokkrir smærri skjálftar voru frá því skömmu fyrir miðnætti þar til snemma í morgun.

Skjálftar af þessari stærðargráðu eru nokkuð algengir í Bárðarbungu. Það sem af er ári hafa tíu skjálftar mælst á þessum slóðum sem voru þrír eða stærri.

Í athugasemdum jarðvísindamanns á vef Veðurstofunnar segir að skjálftarnir sem mælst hafa í jarðskjálftahrinunni við mynni Eyjafjarðar séu nú orðnir yfir þrettán þúsund talsins. Hrinan hófst 19. júní.