Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Slæm meðferð á aldraðri konu náðist á myndband

14.07.2020 - 07:30
Mynd: RÚV / RÚV
Aðbúnaður á hjúkrunarheimilum í Danmörku er nú til skoðunar eftir að slæm meðferð á níræðri konu náðist á myndband. Dómari setti lögbann á birtingu myndbandsins og fréttamenn TV2 sem tóku það upp hafa nú verið kærðir.

Ættingjar hinnar níræðu Else höfðu áhyggjur aðbúnaði hennar en hún bjó á deild fyrir heilabilaða á hjúkrunarheimilinu Kongsgården í Árósum í Danmörku. Þau voru sannfærð um að illa væri hugsað um Else á heimilinu og fengu fréttamenn TV2 í lið með sér til að upplýsa um aðbúnaðinn. Í samráði við ættingja Else komu fréttamenn TV2 fyrir falinni myndavél í herbergi hennar.

Áður en kom að birtingu myndbandsins setti dómari hins vegar lögbann á birtingu þess, með þeim rökum að Else sjálf væri ekki í ástandi til að gefa leyfi fyrir því að gera það opinbert. 

Fjórir starfsmenn TV2, þar með talið fréttastjórinn, hafa nú verið kærðir fyrir upptökuna, sem þeir hafa þó ekki enn þá birt. Það gerði Extra Bladet hins vegar og viðbrögðin við myndskeiðinu hafa ekki látið á sér standa. 

Á myndskeiðinu sést Else hífð upp í einhvers konar belti og starfsmennirnir hvetja hana til að hafa hægðir, þó að hún kvarti undan sársauka. 

Magnus Heunicke, heilbrigðisráðherra Danmerkur, segir að svona nokkuð eigi ekki að viðgangast í Danmörku, eins og sjá má á meðfylgjandi myndskeiði. 

Mette Frederiksen, forsætisráðherra, gerði hlé á sumarfríi sínu og skrifaði í færslu á Facebook um að allir aldraðir ættu að búa við umhyggju og virðingu í Danmörku. 

Den her sommer har budt på nogle hjerteskærende historier om mangel på værdighed for nogle af vores ældste. Jeg vil...

Posted by Mette Frederiksen on Mánudagur, 13. júlí 2020

Þau sem til þekkja segja mál Else ekkert einsdæmi. Peter Nissen, formaður Alzheimer-samtaka Danmerkur, segir samtökin reglulega fá ábendingar frá aðstandendum sem segja ekki nógu vel hugsað um aldraða ættingja þeirra á hjúkrunarheimilum. 

Nokkrum starfsmönnum Kongsgården í Árósum hefur verið sagt upp og forstöðumaður heimilisins var færður til í starfi. Else hefur verið flutt á annað hjúkrunarheimili. 

Birta Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV