Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Sjá ekki fram á heyskap fyrr en í september

14.07.2020 - 13:50
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Margir bændur á Norður- og Austurlandi, sem plægðu tugi hektara í vor þar sem tún voru kalin, sjá ekki fram á heyskap fyrr en í lok ágúst eða í september. Heyskortur blasir við þeim sem ekki eiga fyrningar frá síðasta ári.

Óvenjumikið kal blasti við þegar snjóa leysti á norðausturhorni landsins og nokkrir bændur þurftu að plægja mestalla landareignina og sá grasfræi.

Lítur ekki vel út með uppskeru

Þannig var staðan hjá Sveinbirni Sigurðssyni bónda á Búvöllum í Aðaldal, en 80-90% af hans túnum voru kalin. „En tíðarfarið hefur svosem ekki verið manni hagstætt hvað það varðar að flögin eru gríðarlega þurr og það lítur ekkert vel út með þau, að fá uppskeru af þeim, nema eitthvað breytist í tíðarfari.“  

Sólríkt, þurrt og kaldar nætur

Og þetta segja fleiri bændur sem rætt var við í morgun. Það hefur verið sólríkt síðustu vikur, en kalt á nóttunni og mjög þurrt. Og jafnvel þar sem ekkert var kalið er mun minni uppskera en verið hefur. Á Austurlandi var kal á 40 bæjum og Guðfinna Harpa Árnadóttir, ráðunautur þar, segir að staðan sé víða slæm og uppskera í tæpu meðallagi. Þá var mikið kalið við Þistilfjörð, í Svarfaðardal og víðar.

Aðal heyskapurinn ekki fyrr en í september

Sveinbjörn segist þurfa 900 rúllur af heyi, en hefur ekki náð að heyja nema 180 rúllur. En þetta geti allt breyst verði úrkoma og hlýindi næstu vikur. En þá verði heyskapur seint á ferðinni. „Aðal heyskapurinn verður hjá mér, og sjálfsagt mörgum öðrum, ekki fyrr en í september. Þegar menn eiga nú að vera að fást við eitthvað annað. Ég er svosem búinn að lenda oft í kali og það sem maður hefur endurunnið smenna á vorin það hefur aldrei brugðist. En það getur gerst,“ segir hann.