Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Segir að ræða þurfi sumar tillögurnar betur

14.07.2020 - 07:09
Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Ýmsar breytingar sem lagðar eru til á stjórnarskrá í nýframlögðu frumvarpi í samráðsgátt stjórnvalda eru þess eðlis að þær verður að ræða nánar áður en lengra er haldið. Þetta segir Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag. Þeirra á meðal segir hann að séu ákvæði um kjörtímabil forseta og aðkomu hans að stjórnarmyndun og þingrofi.

Frumvarpið var lagt fram til kynningar í samráðsgáttinni 1. júlí. Þar var tekið fram að það byggði á stjórnarskrárvinnu formanna flokkanna sem sæti eiga á þingi. Einnig var tekið fram að kynningin fæli ekki í sér skuldbindingu þeirra um að standa að því að leggja frumvarpið fram. Í frumvarpinu er þingræði bundið í stjórnarskrá, ákvæði um heimild Alþingis til að afturkalla lög sem forseti hefur vísað í þjóðaratkvæðagreiðslu og ýmsar breytingar á stöðu og hlutverki forseta.

„Margt er prýðilegt í þeim frumvarpsdrögum sem nú hafa verið birt á samráðsgáttinni en annað vekur óneitanlega spurningar,“ segir Birgir í grein sinni. Hann segir að markmið stjórnarskrárendurskoðunar hljóti að vera að færa orðalag ákvæða hennar nær raunveruleikanum og framkvæmd síðustu áratuga. „Ljóst er að í þessum drögum er gengið talsvert lengra og gert ráð fyrir breytingum sem eru efnislegar en varða ekki bara form og framsetningu.“

Birgir segir að ræða þurfi sértaklega ákvæði um lengd og fjölda kjörtímabila forseta, og aðkomu hans að stjórnarmyndun og þingrofi. Samkvæmt frumvarpinu getur forseti mest setið tvö sex ára kjörtímabil, hefur heimild til að kalla eftir stuðningsyfirlýsingu þings við nýja ríkisstjórn áður en hann skipar hana og þarf að ganga úr skugga um vilja meirihluta þingmanna áður en hann samþykkir þingrof. Að auki vill Birgir að fram fari umræða um hversu virkur forseti eigi að vera á verksviði ríkisstjórnar og Alþingis. Hann segir að vilji menn að forseti hafi veigameira hlutverki að gegna um stjórnmálalegar ákvarðanir en verið hefur verði að marka slíka stefnu með meðvitum hætti í kjölfar ítarlegra umræðna