Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ríkur vilji fyrir þéttara Norðurlandasamstarfi

Alls staðar á Norðurlöndunum er sterkur pólitískur vilji fyrir því að Norðurlöndin vinni þéttar saman, segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra. Hann fagnar skýrslu Björns Bjarnasonar, fyrrverandi ráðherra, um þróun norræns samstarfs á sviði utanríkis- og öryggismála.

Björn fékk það verkefni síðastliðið haust frá utanríkisráðherrum Norðurlandanna, að tillögu Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra, að skrifa óháða skýrslu um þróun norræns samstarfs á sviði utanríkis- og öryggismála.

Skýrslunni er ætlað að taka við af skýrslu Thorvald Stoltenberg, fyrrverandi utanríkisráðherra Noregs, sem unnin var fyrir ellefu árum og talin er marka tímamót.

Björn afhenti utanríkisráðherra skýrsluna nýlega en þar er að finna 14 tillögur um hina ýmsu þætti eins og aukna sameiginlega stefnumörkun Norðurlandanna á sviði loftslagsmála, um loftslagsöryggi og þróunarmál, sameiginlega afstöðu til Kína á norðurslóðum, viðbúnað vegna heimsfaraldra, norrænt samstarf um utanríkisþjónustu og að rannsóknir á sviði utanríkis- og öryggismála skuli efldar svo fátt eitt sé nefnt.

Guðlaugur Þór segir augljóst að ríkur pólitískur vilji sé á öllum Norðurlöndunum fyrir norrænu samstarfi. „Eitt er að vera þeirrar skoðunar því síðan er hitt að sjá hlutina komast í framkvæmd,“ segir hann.

Kveðst ráðherra vona að tillögur Björns komist sem flestar til framkvæmda á næstu mánuðum og árum, en þær verða ræddar á fundi utanríkisráðherra Norðurlandanna í september.

johannav's picture
Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir
Fréttastofa RÚV