Öruggur sigur Breiðabliks í Eyjum

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Öruggur sigur Breiðabliks í Eyjum

14.07.2020 - 19:30
Breiðablik vann öruggan 4-0 sigur á ÍBV í Pepsi Max-deild kvenna í fótbolta í kvöld er liðið lék fyrsta deildarleik sinn eftir að hafa lokið tveggja vikna sóttkví. Liðið er með fullt hús stiga og hefur enn ekki fengið á sig mark í sumar.

Breiðablik hafði leikið þrjá leiki áður en leikmenn liðsins fóru í sóttkví eftir að leikmaður þess hafði greinst með COVID-19. Liðið lék sinn fyrsta deildarleik eftir það í kvöld er það flaug til Vestmannaeyja og mætti ÍBV.

Markamaskínan Berglind Björg Þorvaldsdóttir kom Breiðabliki í forystu um miðjan fyrri hálfleik áður en Alexandra Jóhannsdóttir tvöfaldaði þá forystu skömmu fyrir leikhlé. 2-0 stóð í hléi en Berglind skoraði sitt annað mark á 64. mínútu. Átta mínútum síðar lék Alexandra þann leik eftir er hún skoraði annað mark sitt í leiknum.

4-0 fór leikurinn og er Breiðablik með fullt hús stiga, 12 stig eftir fjóra leiki, þremur stigum frá toppliði Vals sem er einnig með fullt hús en hefur leikið einum leik meira. Breiðablik hefur enn ekki fengið á sig mark í deildinni og er með markatöluna 15-0 eftir fyrstu fjóra leikina.

Fyrsti sigur FH

FH vann þá sinn fyrsta sigur í sumar er liðið lagði Þór/KA af velli, 1-0, á Akureyri. Madison Santana Gonzalez skoraði þar eina mark leiksins fimm mínútum fyrir leikslok.

FH var án stiga fyrir leikinn, rétt eins og KR, en er nú með þrjú stig, rétt eins og ÍBV. Þór/KA er með sex stig, líkt og Stjarnan, en leikur Stjörnunnar og KR í Garðabæ hófst klukkan 19:15 í kvöld.