Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Óljóst hvenær hámarkshraði verður hækkaður á Kjalarnesi

14.07.2020 - 15:41
Mynd með færslu
 Mynd: Gunnlaug Birta Þorgrímsdóttir - RÚV
Ekki hefur verið ákveðið hvenær hámarkshraði verður hækkaður á ný á vegkafla á Kjalarnesi þar sem banaslys varð í lok júní. Upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar segir mælingar á hemlunarviðnámi viðunandi. 

 

Hámarkshraði lækkaður eftir malbikun

Vegagerðin hefur ákveðið að lækka hámarkshraða á nýmalbikuðum vegköflum, niður í 50 kílómetra á klukkustund, og setja upp skilti sem vara við hálku. Þessa ákvörðun tók vegamálastjóri eftir að par lést í bifhjólaslysi á Kjalarnesi þann 28.júní síðastliðinn. Slysið mátti rekja til galla í malbiki, það stóðst ekki útboðsskilmála og vegurinn var glerháll. Sýni úr malbikinu hafa verið send til Svíþjóðar til greiningar og slysið er komið inn á borð rannsóknarnefndar samgönguslysa. 

Mælingar á hemlunarviðnámi ráða

G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar segir að ákvörðun um að lækka hámarkshraða sé öryggisráðstöfun. Það sé þekkt, óháð göllum, að vegir séu hálir þegar þeir eru nýmalbikaðir. Þeir jafni sig svo þegar frá líður. Við nýmalbikaða vegi, þar sem hámarkshraði er alla jafna yfir 50 km á klukkustund er nú í gildi tímabundinn 50 kílómetra hámarkshraði. Hann gildir að sögn G. Péturs þar til mælingar á hemlunarviðnámi vegarins eru orðnar viðunandi.

Menn vilji fara sér hægt

Eftir slysið var vegkaflinn á Kjalarnesi malbikaður aftur og hraðinn tekinn niður. Þar er enn 50 km hámarkshraði, tveimur vikum síðar. G. Pétur segir að kaflinn mælist nú yfir lágmarksmörkum um hemlunarviðnám en menn vilji fara sér hægt, hann veit ekki hvenær hámarkshraðinn verður hækkaður aftur.