
Lilja óskaði eftir flýtimeðferð á málinu gegn Hafdísi
Kærunefndin taldi að Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra hefði brotið jafnréttislög með skipun Páls Magnússonar, í embætti ráðuneytisstjóra í nóvember. Hafdís Helga Ólafsdóttir, skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu, var á meðal umsækjenda – hún taldi á sér brotið, kvartaði yfir skipuninni til kærunefndarinnar og hafði þar sigur.
Lilja hefur hins vegar ákveðið að láta reyna á niðurstöðuna fyrir dómi og boðað dómsmál á hendur Hafdísi í því skyni. Hún hefur vísað til lögfræðiálita sem hún hafi aflað sér um að úrskurðurinn sé haldinn annmörkum.
Verður höfðað þótt flýtimeðferð verði hafnað
Lilja fór fram á það við kærunefndina að réttaráhrifum af úrskurðinum yrði frestað á meðan, sem nefndin samþykkti með því skilyrði að málið yrði borið undir dómstóla innan þrjátíu daga og óskað yrði eftir flýtimeðferð. Þrjátíu dagar verða liðnir á fimmtudag.
Ríkislögmaður fer með málið fyrir Lilju, en vegna tengsla embættis ríkislögmanns við forsætisráðuneytið var því útvistað til Víðis Smára Petersen lögmanns á Lex. Hann staðfestir við fréttastofu að formlega hafi verið óskað eftir því við Héraðsdóm Reykjavíkur í gær að málið fái flýtimeðferð – dómstjóri taki sér jafnan fáeina daga til að meta slíkar beiðnir og verði fallist á hana hafi Lilja og lögmaður hennar nokkra daga til viðbótar til að stefna Hafdísi fyrir dóm. Fallist dómstjóri ekki á flýtimeðferð verði málið engu að síður höfðað.