Leiðtogi nýsjálensku stjórnarandstöðunnar segir af sér

14.07.2020 - 05:49
Leader of the opposition National Party, Todd Muller, arrives at a press conference in Christchurch, New Zealand, Thursday, July 9, 2020. The New Zealand general election will be held on Saturday Sept. 19. (AP Photo/Mark Baker)
 Mynd: AP
Leiðtogi og forsætisráðherraefni stærsta stjórnarandstöðuflokksins á Nýja Sjálandi sagði óvænt af sér formennsku í morgun af heilsufarsástæðum, aðeins nokkrum vikum eftir að hann settist í formannsstólinn. Þingkosningar fara fram á Nýja Sjálandi í september og ljóst að flokki hans er nokkur vandi á höndum að finna arftaka sem veitt getur Jacindu Ardern raunverulega samkeppni um hylli kjósenda.

 

„Ekki besti maðurinn“

Todd Muller, sem tók við formennsku í Þjóðarflokknum í lok maí, sendi frá sér stutta yfirlýsingu í morgun, þar sem hann tilkynnti afsögn sína, sem hefði þegar tekið gildi. Sagðist hann „ekki [vera] besti maðurinn" til að leiða flokkinn í kosningunum í haust.

„Það er mikilvægara nú en nokkru sinni fyrr að Þjóðarflokkur Nýja Sjálands hafi leiðtoga sem finnur sig vel í því hlutverki," skrifar Muller, sem skoraði forvera sinn á formannsstólnum á hólm í formannskosningum í maí og hafði sigur. Formannsskiptin hafa þó litlu breytt um fylgi flokksins og Ardern og flokkur hennar, Verkamannaflokkurinn, hafa enn öruggt forskot í öllum könnunum.

„Formannshlutverkið hefur reynst bæði mér og fjölskyldu minni mikil raun, og staðan er orðin óverjandi út frá heilsufarssjónarmiði," segir í yfirlýsingu Mullers, sem ekki fer nánar út í það, hvaða heilsuvandamál það eru, sem hann á við að glíma.

Á brattann að sækja gegn geysivinsælli Ardern

Hver sem við formennskunni tekur á ærið og erfitt verk fyrir höndum. Ardern, sem var farin að dala nokkuð í vinsældum síðasta haust, þykir hafa tekið afar vel á öllu er lýtur að kórónaveirufaraldrinum og er nú vinsælli en nokkru sinni.

Þótt fylgi Þjóðarflokksins hafi vaxið aðeins eftir að Muller tók við forystu hans og hafi mælst 38 prósent þegar mest var, þá dugir það skammt gegn 50 prósentunum sem Verkamannaflokkurinn mældist með í sömu könnun. Enn meiri var munurinn þegar kjósendur voru spurðir, hvern þeir vildu helst sjá í embætti forsætisráðherra. Þeirri spurningu svöruðu einungis 13 prósent með Muller, en 54 prósent með Ardern.

Þingkosningar verða haldnar á Nýja Sjálandi hinn 19. september.   

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi