Katrín tryggði 10 KR-ingum fyrsta sigurinn

Mynd: Mummi Lú / RÚV

Katrín tryggði 10 KR-ingum fyrsta sigurinn

14.07.2020 - 21:35
KR vann sinn fyrsta leik í Pepsi Max-deild kvenna í fótbolta í sumar er liðið heimsótti Stjörnuna í kvöld. Selfoss tapaði þá dýrmætum stigum gegn nýliðum Þróttar frá Reykjavík.

Stjarnan var fyrir heimsókn KR-inga í kvöld með sex stig eftir fyrstu fimm leiki sína en hafði tapað tveimur leikjum í röð. KR hafði aðeins leikið þrjá leiki þar sem liðið þurfti að fara í sóttkví í tvær vikur, og tapað þeim öllum. Það var því að duga eða drepast fyrir KR-konur í kvöld.

Katrín Ásbjörnsdóttir, fyrrum leikmaður Stjörnunnar, kom KR yfir á tólftu mínútu leiksins eftir að hafa verið send í gegn. Hin nýsjálenska Betsy Hassett, sem er fyrrum leikmaður KR, jafnaði aftur á móti fyrir Stjörnuna með langskoti um miðjan fyrri hálfleik. Skömmu eftir það fékk Ana Cate, bakvörður KR, að líta tvö gul spjöld með skömmu millibili og þar með rautt. KR lék því manni færri síðustu 60 mínútur leiksins. Það kom ekki að sök þar sem hin unga Alma Mathiesen kom KR aftur í forystu skömmu fyrir leikhléið og staðan 2-1 fyrir gestina þegar hálfleiksflautið gall.

KR var síst slakari aðilinn í síðari hálfleik þrátt fyrir að leik 10 gegn 11 en Snædís Maríu Jörundsdóttur tókst þó að jafna fyrir Stjörnuna eftir stundarfjórðungsleik í síðari hálfleik. Það var þá ekki fyrr en á 88. mínútu sem sigurmark kom. Þá sendi Katrín Ómarsdóttir nöfnu sína Katrínu Ásbjörnsdóttur í gegn og hún tryggði KR 3-2 sigur með laglegri afgreiðslu.

KR er þá með þrjú stig og komið á blað. FH var einnig stigalaust fyrir leiki kvöldsins en sigur liðsins á Þór/KA fyrir norðan þýðir að KR, FH og ÍBV eru öll jöfn með þrjú stig í neðstu sætum deildarinnar.

Viðtöl við Katrínu Ásbjörnsdóttur úr KR og Örnu Dís Arnþórsdóttur úr Stjörnunni má sjá í spilaranum að ofan.

Misstig Selfoss

Þar fyrir ofan er lið Þróttar frá Reykjavík sem fékk bikarmeistara Selfoss í heimsókn í kvöld. Leikur liðanna var nokkuð bragðdaufur og skemmst frá því að segja að hvorugu liðinu tókst að setja mark sitt á leikinn. Hólmfríður Magnúsdóttir úr Selfossi fékk að líta sitt seinna gula spjald og þar með rautt þremur mínútum fyrir leikslok en lokatölur 0-0 í Laugardal.

Selfoss er þá með aðeins sjö stig eftir fyrstu fimm leiki sína, átta stigum frá toppliði Vals en Selfosskonur gáfu út háleit markmið sín um Íslandsmeistaratitil fyrir mót. Þróttur er með fimm stig í sjöunda sæti deildarinnar.