Innbrotsþjófur reyndi að hlaupa frá lögreglu

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók í nótt mann á stolnum bíl eftir að tilkynnt var um tvær innbrotstilraunir í Árbænum í Reykjavík í kringum miðnætti.

Fyrri innbrotstilraunin var tilkynnt lögreglu rétt fyrir miðnætti. Klukkustund síðar var tilkynnt um aðra innbrotstilraun og af lýsingum mátti ráða að sami maður væri á ferð. Hann sást skömmu síðar á bíl en sinnti ekki stöðvunarmerkjum lögreglu. Þess í stað flýði maðurinn um Árbæinn og reyndi að lokum að komast undan lögreglu á hlaupum inn í Elliðaárdal. Maðurinn fannst eftir nokkra leit og var handtekinn. Í þessum aðgerðum kom í ljós að bílnum sem maðurinn var á hafði hann stolið á seinni staðnum þar sem hann reyndi að brjótast inn. 

Einn var handtekinn fyrir heimilisofbeldi á svæði lögreglustöðvarinnar sem sinnir Grafarvogi, Mosfellsbæ og Árbæ en ekki koma fram frekari upplýsingar um brot hans í skeyti frá lögreglu. 

Nokkuð var um akstur undir áhrifum áfengis eða fíkniefna og sömuleiðis um hávaða og ónæði. Einn ökumaður reyndi að ljúga að lögreglu þegar hann átti að gera grein fyrir sér. 

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi