Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Í tveggja ára fangelsi fyrir að nauðga fötluðum nemanda

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Héraðsdómur Reykjavíkur hef­ur dæmt karl­mann í tveggja ára fang­elsi fyr­ir að nauðga í þrígang nemanda sínum, ung­um manni, sem glím­ir við þroska­höml­un. Brotin áttu sér meðal annars stað á salerni á Þjóðminjasafninu

Í dómn­um kem­ur fram að ungi maður­inn glími við þroska­höml­un, ódæmi­gerða ein­hverfu, heila­löm­un og floga­veiki. Hann hafi því hvorki spornað við háttsemi ákærða né getað skilið þýðingu hennar. Maðurinn hafi notfært sér freklega þá aðstöðu sina að ungi maðurinn var honum háður sem skjólstæðingur, en maður­inn var kenn­ari hans í um átta ára skeið, var honum til aðstoðar í sérdeild fyrir fötluð börn og var síðan aðstoðarmaður hans í dagdvöl fyrir fatlað fólk fyrir tilstuðlan Reykjavíkurborgar.

Í því fólst meðal annars að þeir hittust tvisvar til þrisvar í viku og gerðu eitthvað saman; fóru til dæmis í strætó sem unga manninum fannst mjög gaman.

Viðurkenndi brotið fyrir forráðamönnum

Rann­sókn máls­ins hófst eft­ir að lögráðamaður unga manns­ins lagði fram kæru fyr­ir hönd hans, eftir að hafa tekið eftir sæði í nær­bux­um hans. Í annað skiptið hafi það verið eft­ir að hann fór í bíó með hinum ákærða en í hitt skiptið eft­ir að þeir fóru sam­an í lautarferð í Heiðmörk.

Í kjöl­far þess ræddu lögráðamaðurinn og faðir unga manns­ins við rétt­inda­gæslu­mann fatlaðra og lög­reglu, og síðar við þann ákærða sem hefði viður­kennt að hafa hjálpað brotaþola við að fróa sér tvisvar. Ákærði gaf þá skýringu að hann hefði lesið á net­inu að það væri gott fyr­ir fólk með floga­veiki til að losa um til­finn­ing­ar. Hann bað um að ekki væri farið með málið til lögreglu.

Ákveðið var að þeir myndu ekki hittast aftur, en ári síðar hafði ekki tekist að finna nýjan aðstoðarmann fyrir unga manninn og maðurinn bað um að fá annað tækifæri. Við því var orðið, en réttargæslumaður fatlaðra ráðlagði forráðamönnum hans að fara til lögreglu vegna málsins sem var gert og í kjölfarið hættu þeir að hittast.

Sagðist hafa verið að aðstoða unga manninn

Fyrir dómi játaði ákærði að hafa fróað unga manninum í þrígang; í hléi á kvikmyndasýningu í Egilshöll, á salerni Þjóðminjasafnsins og í Heiðmörk.

Hann sagði að ungi maðurinn hefði verið byrjaður að gefa sér bendingar um að hann vildi stunda sjálfsfróun og hann hafi ákveðið að verða við því. Hann kvaðst hafa aðstoðað hann við sjálfsfróunina með því að standa á bak við hann og gera það „sem hann var ekki hæfur til að gera með eigin hreyfingum,“ eins og það er orðað í dómsorði og þannig hafi ákærði verið „eins konar millistykki“. Enginn kynferðislegur tilgangur hafi verið með athæfinu.

Alvarleg og gróf trúnaðarbrot

Í dómn­um er þess­um mála­til­búnaði hafnað. Sannað þyki að ákærði hafi not­fært sér ástand unga manns­ins og stöðu sína gagn­vart hon­um. Um sé að ræða mjög alvarleg og gróf trúnaðarbrot og þau rök, að jákvæðar hvatir hafi búið að baki háttsemi ákærða, séu ekki forsendur til refsimildunar. Aðferðin við brotið sé misneyting þar sem ákærði notfæri sér aðstöðu sína á ótilhlýðilegan hátt.

Meira en 4,5 milljónir í sakarkostnað

Var maður­inn því fund­inn sek­ur og dæmd­ur í tveggja ára fang­elsi. Einnig var hon­um gert að greiða unga mann­in­um 1,2 millj­ón­ir króna með vöxt­um og verðtrygg­ingu, mál­svarn­ar­laun verj­anda síns, Sveins Andra Sveins­son­ar, 1.450.000 krón­ur, þókn­un skipaðs rétt­ar­gæslu­manns brotaþola, Guðrún­ar Bjarg­ar Birg­is­dótt­ur,  1.250.000 krón­ur og ann­an sak­ar­kostnað að fjár­hæð 650.740 krón­ur.

Samtals er honum því gert að greiða yfir 4,5 milljónir í sakarkostnað.

 

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir