Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Get ímyndað mér að ég fengi möguleikana karl og karl“

Mynd með færslu
Þorbjörg Þorvaldsdóttir, formaður Samtakanna ´78.  Mynd: Kristín María - Aðsend mynd
Stofnanir og fyrirtæki hafa sex mánuði til að verða við kröfum laga um kynrænt sjálfræði sem nú eru orðin eins árs. Þar á meðal eru kvaðir um að bjóða upp á hlutlausa kynskráningu. Samtökin 78 og Trans Ísland hafa ráðist í átak til að leiðbeina fyrirtækjum. Þorbjörg Þorvaldsdóttir og Ugla Stefanía ræddu átakið á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun.

„Núna í sumar áttuðum við okkur á því að það væru líklegast ekkert ótrúlega margir sem gera sér grein fyrir því að þetta verður lögbundið eftir hálft ár og fyrir margar stofnanir og fyrirtæki getur þetta verið vesen að bæta við möguleikum, það geta verið tölvukerfi undir og svo framvegis. Við vildum ráðast í þetta átak til að hvetja fólk til þess að taka til hjá sér,“ segir Þorbjörg Þorvaldsdóttir, formaður Samtakanna 78. Hægt er að nálgast leiðbeiningarnar á heimasíðu samtakanna, þar gefst almenningi líka kostur á því að senda ábendingar um úrelt eyðublöð. 

Vilja fimm möguleika

Samtökin leggja til að á skráningarformum verði fimm möguleikar. „Karl, kona, kynsegin og svo tveir aðrir möguleikar, annað og vil ekki svara. Það er í rauninni verið að bjóða fólki upp á það líka að kyn þeirra sé ekki sérstaklega skráð,“ segir Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir, formaður Trans Ísland. Kyn sé fjölbreytt fyrirbæri og erfitt að skilgreina allar mögulegar kynvitundir með nokkrum orðum. 

Mynd með færslu
 Mynd: Sharon Kilgannon
Ugla Stefanía.

Óþægilegt að miskynja sig

Þorbjörg segir kynjaskráninguna skipta miklu máli til að tryggja aðgengi allra að almannarýminu. „Maður er kannski að sækja um eitthvað sem skiptir engu máli þannig séð og svo fær maður möguleikana, ég get ímyndað mér sem sís kona að ég fengi tvo möguleika og þeir væru karl og karl og ég stæði frammi fyrir því að þurfa að velja annað hvort, það er ótrúlega óþægilegt, eða pínu skrítið eitthvað.“

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV