Fyrsti hluti nýs Vestfjarðavegar boðinn út

14.07.2020 - 16:35
Mynd með færslu
Ódrjúgsháls í Reykhólasveit á sunnanverðum Vestfjörðum. Mynd: Jóhannes Jónsson - Ríkisútvarpið ohf
Vegagerðin hefur auglýst eftir tilboðum í endurbyggingu Vestfjarðavegar í Gufufirði. Það eru 6,6 kílómetra vegarkafli frá Gufudalsá að Skálanesi. Einungis um 1,2 kílómetrar verða þó hluti af Vestfjarðavegi í framtíðinni.

Þetta kemur fram á heimasíðu Reykhólahrepps. Einungis 1,2 kílómetrar, frá Melanesi að Skálanesi, munu nýtast sem hluti af Vestfjarðavegi til frambúðar. Meirihluti verksins verða 5,4 kílómetrar frá Melanesi að Gufunesi. Sá kafli mun þjóna umferð um Gufudal þar til af ætlaðri þverun Gufufjarðar og Djúpafjarðar verður. 

Veglagning um Teigsskóg fellur ekki undir þennan hluta verksins. Deilt hefur verið um leiðarval vegna umhverfisáhrifa fyrirhugaðrar veglínu. Þar eru einna helst þau áhrif sem vegur í gegnum Teigsskóg hefur, en hann er stærsti samfelldi birkiskógur á Vestfjörðum. Jafnframt hefur verið bent á neikvæð áhrif veglagningar á leirur og dýralíf.

Sigurþór Guðmundsson, verkefnastjóri framkvæmdarinnar hjá Vegagerðinni, sagði í samtali við fréttastofu í síðasta mánuði að hafist yrði fyrst handa á þeim köflum nýs Vestfjarðavegar sem minnstur ágreiningur er um. Þetta sé gert vegna þriggja kæra sem liggja nú hjá Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála vegna nýs Vestfjarðavegar.

Samkvæmt síðu Reykhólahrepps skal verkinu lokið að fullu um miðjan júlí 2021. Hægt verður að skila tilboðum til þriðjudagsins 11. ágúst. Tilboð verða opnuð að því loknu. 

Fyrirsögn fréttarinnar hefur verið breytt. 

Þrír firðir verða þveraðir í nýrri veglínu Vestfjarðavegar. Þorskafjörður, Djúpifjörður og Gufufjörður.
elsamd's picture
Elsa María Guðlaugs Drífudóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi