Fleiri óttast kórónuveirusmit

14.07.2020 - 12:38
Mynd með færslu
 Mynd: Shutterstock
Þeim fjölgar sem óttast kórónuveirusmit hér á landi, samkvæmt nýjum þjóðarpúlsi Gallups, um viðhorf fólks til COVID-19. Þó eru enn fleiri sem hafa litlar áhyggjur. Yfir helmingur þjóðarinnar hefur miklar áhyggjur af efnahagslegum áhrifum farsóttarinnar.

Tæplega 24 prósent svarenda sögðust óttast það mikið að smitast af veirunni. Það eru mun fleiri en fyrir mánuði og svipað hlutfall og í apríl. Á sama tíma hefur þeim fækkað sem breyta venjum sínum mikið til að forðast smit.

Þá fjölgar þeim sem telja of lítið sé gert úr heilsufarslegri hættu af COVID-19 hér á landi. Að sama skapi fjölgar þeim sem telja Almannavarnir og heilbrigðisyfirvöld gera of lítið til þess að bregðast við. Mikill meirihluti þeirra sem svöruðu, tæp 80 prósent, telur þó að hæfilega mikið sé gert.

Þriðjungur þjóðarinnar telur ríkisstjórnina gera of lítið til þess að fyrirbyggja eða bregðast við neikvæðum efnahagslegum áhrifum faraldursins.

Meirihluti treystir Almannavörnum, heilbrigðisyfirvöldum og ríkisstjórninni til þess að takast á við COVID-19 og áhrif faraldursins.

Sjö prósent sögðust vera í sjálfskipaðri sóttkví, tveimur prósentustigum meira en fyrir hálfum mánuði. Þegar mest lét, um miðjan apríl, sögðust 22 prósent vera í sjálfskipaðri sóttkví.

Ef rýnt er í tekjuskiptingu kemur í ljós að þeir sem eru efnameiri óttast síður að smitast af kórónuveirunni en þeir sem eru efnaminni. Þá eru kjósendur Miðflokksins hræddastir við að smitast. Kjósendur Sjálfstæðisflokksins og Viðreisnar og þeir sem myndu skila auðu í kosningum óttast smit minnst.

Þjóðarpúlsinn var gerður 2.-13. júlí. Í úrtakinu voru 1.584 og þátttökuhlutfall var 53,4 prósent.

birgirthh's picture
Birgir Þór Harðarson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi