Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Enginn grundvöllur fyrir viðræðum í Herjólfsdeilunni

Mynd með færslu
 Mynd:
Verkfall Herjólfs, sem hófst á miðnætti og lýkur á miðnætti annað kvöld, veldur miklu tjóni í ferðaþjónustunni í Vestmannaeyjum. Þetta segir hóteleigandi í Eyjum sem segist hafa orðið fyrir miklu tapi vegna þess og á von á að það verði meira. Hann biðlar til deiluaðila um að finna lausn. Talsmenn þeirra segja engan grundvöll fyrir viðræðum.

Þetta er önnur af þremur vinnustöðvunum sem hafa verið boðaðar hjá undirmönnum um borð í Herjólfi sem eru í Sjómannafélagi Íslands. Sú fyrsta var í sólarhring í síðustu viku, sú sem nú stendur yfir verður í tvo sólarhringa og þriggja daga vinnustöðvun er áformuð frá miðnætti 21. júlí.

Magnús Bragason, sem rekur Hótel Vestmannaeyjar, segir að nú rói hann, og aðrir eigendur hótela og veitingastaða í Eyjum, lífróður. Fullbókað var á hóteli hans, en það er nú nánast tómt.

„Það var byrjað að vera mikið að gera, júní og júlí litu bara mjög vel út og það var fullbókað næstu daga. Í dag og á morgun er búið að afbóka flestöll herbergi og í næstu viku er byrjað að afbóka. Þannig að þetta skaðar okkur verulega. Og máttum við ekki við því.“

Nokkrir strandaglópar

Magnús segir að nokkrir gestir hafi orðið strandaglópar á hótelinu. „Það er vinnuflokkur sem átti að fara í dag sem verður að dvelja í tvær nætur í viðbót. Svo eru gestir sem flýttu för og ákváðu að dvelja í Eyjum í þrjár nætur.“

Ekki hefur verið boðað til fundar í deilunni. Guðbjartur Ellert Jónsson framkvæmdastjóri Herjólfs segir ekkert tilefni fyrir deiluaðila til að funda, ekki verði boðnar hækkanir umfram Lífskjarasamninginn. Jónas Garðarsson, formaður Sjómannafélags Íslands, segir að enginn grundvöllur sé fyrir viðræðum.

Segist telja aðgerðirnar ótímabærar

Magnús óttast að þessar aðgerðir hafi áhrif á ímynd Vestmannaeyja sem áfangastaðar fyrir ferðamenn og segist vonast til að samningar náist fyrir næstu vinnustöðvun. „Okkur finnast þetta ótímabærar aðgerðir. Þetta skaðar ímynd okkar, hún var að lagast eftir undanfarin ár. Við vorum í átaki sem heitir Vestmannaeyjar - Góð hugmynd. Ég veit ekki hversu góð hugmynd hún er í dag.“