Björguðu manni úr brennandi húsi á Djúpavogi

14.07.2020 - 15:40
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Snör viðbrögð þriggja íbúa á Djúpavogi virðast hafa bjargað lífi manns þegar eldur kviknaði í íbúðarhúsi þar á laugardagskvöld. Eftir mikil hróp og köll við húsið tókst þremenningum að vekja húsráðanda sem kom sér út úr brennandi húsinu.

Aðkoman skelfileg

Brynjólfur Reynisson, íbúi á Djúpavogi, var fyrstur á vettvang ásamt konu sinni Guðnýju Björgu Jónsdóttur og Guðmundi Má Karlssyni. Brynjólfur segir aðkomuna að húsinu hafa verið skelfilega.  

„Við sáum ekkert inn sko inn sko, það var svo gríðarlegur reykur þarna að það var allt bara kolsvar, við sáum ekki neitt. Ég hringi bara beint í Neyðarlínuna og við förum bara í það að ásamt öðrum strák sem var kominn þarna að berja á glugga og öskra inn um glugga og berja á hurðir með þvílíkum látum og bara hafa eins hátt í okkur og við gátum. Við vissum ekkert hvort maðurinn væri inni eða ekki en við vissum öll þarna, þekkjum öll alla hérna og vissum alveg hver myndi búa þarna,“ segir Brynjólfur.

Maðurinn heill á húfi

Eftir að hafa lamið á hurðir í nokkrun tíma vaknaði maðurinn og náði að koma sér út úr húsinu.

„Ég var ekki þá við dyrnar, þá voru þau konan mín og Guðmundur Már sem var þarna með svolítið farin að lengja eftir því að hann kæmi og voru svina við það að fara að sparka upp hurðina þegar þau heyra að hann er farinn að eiga við hurðina og er þá að reyna að opna.“

En eftir öll þessi læti, var ekki góð tilfinning að sjá manninn heilan á húfi koma út?

„Það var alveg ólýsanleg tilfinnig að vera búinn að ná honum og bara vita það að hann væri kominn út.“ 

 

Óðinn Svan Óðinsson
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi