Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Útgöngu- og áfengissölubann til að hemja COVID-19

13.07.2020 - 00:42
Freshly-dug graves in a row at Johannesburg's main Westpark Cemetery, Thursday, July 9, 2020. The Africa Centers for Disease Control and Prevention says the coronavirus pandemic on the continent is reaching "full speed" after cases surpassed a half-million and a South African official said a single province is preparing 1.5 million gravesites, the Africa CDC chief says it's good to prepare for the "worst-case scenario." (AP Photo Denis Farrell)
 Mynd: AP
Stjórnvöld í Suður-Afríku hafa gripið til þess öðru sinni að banna sölu á áfengi í landinu, til að freista þess að hamla útbreiðslu kórónuveirunnar sem veldur COVID-19. Áfengissölubannið er ein af mörgum ráðstöfunum sem tilkynntar voru í dag í sama augnamiði. Af öðrum slíkum má nefna útgöngubann frá níu á kvöldin til klukkan fjögur að morgni og grímuskyldu á almannafæri.

Yfirvöld í Suður-Afríku bönnuðu áfengissölu í mars síðastliðnum í þessum sama tilgangi en afléttu því 1. júní. Smitum hefur fjölgað mjög í kjölfarið og því var gripið til þessa ráðs á ný. Um og yfir 12.000 ný smit hafa greinst á degi hverjum að undanförnu, sem reynir mjög á heilbrigðiskerfi landsins.

Yfir 4.000 dauðsföll

Ekkert Afríkuland hefur farið jafn illa út úr faraldrinum og Suður-Afríka, þar sem nær 280.000 smit hafa nú verið staðfest og yfir 4.000 dauðsföll rakin til COVID-19. Forseti landsins, Cyril Ramaphosa,sagði í sjónvarpsávarpi í kvöld að það væri bráðnauðsynlegt að auka ekki álag á sjúkrahús og heilsugæslur landsins með meiðslum og slysum sem rekja má til áfengisneyslu. Því verði sala og dreifing áfengis bönnuð frá og með deginum í dag.