Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Urðu fyrir kynþáttafordómum á ferð um Snæfellsnes

13.07.2020 - 17:47
Miðinn sem límdur var á bíl Söru Magnúsdóttur
 Mynd: Aðsend
Magnús Secka og móðir hans Sara Magnúsdóttir urðu fyrir verulega óskemmtilegri upplifun í gær á ferð sinni um Snæfellsnes. Eftir að hafa ekið um sáu þau að límmiði með skilaboðunum: „If you are black or brown: please leave this town!“ hafði verið límdur á hliðarspegil bíls þeirra, en Magnús er dökkur á hörund.

„Við eigum land á Snæfellsnesi,“ segir Magnús í samtali við fréttastofu. Sjálfur hafði dvalið þar undanfarna daga og í gær kom móðir hans vestur til að hitta hann. Þau mæltu sér mót við Vegamót, þar sem Magnús settist inn í bíl móður sinnar. Þau óku því næst um syðri hluta Snæfellsnes og stoppuðu á nokkrum stöðum.

Eftir að hafa verið á ferðinni í þó nokkurn tíma héldu þau aftur að Vegamótum og það var þar sem þau uppgötvuðu að límmiði með kynþáttahatursorðræðu hafði verið límdur á spegilinn.

Magnús segir óneitanlega hafa verið skrýtið að sjá miðann, sem auk skilaboðanna geymir slóð á bandaríska vefsíðu sem deilir kynþáttahatri í garð svartra. „Ég tek þetta ekkert inn á mig, en mamma varð reið,“ segir hann og kveðst aldrei áður hafa orðið fyrir kynþáttafordómum hér á landi.

Þau urðu hvergi vör við að fólk væri að þvælast í kringum bílinn, en á einum stað segir Magnús móður sína hafa séð þrjá einstaklinga tilsýndar sem hana gruni um verkið.

„Þetta er snarlasið og þegar maður fer að spá í því, mjög óþægilegt og ferlegt bókstaflega,“ segir Sara í færslu á Facebook síðu sinni og hvetur fólk til að berjast gegn þessu. Viðbrögðin hafa líka verið mikil og færslunni hefur nú verið deilt hátt í 900 sinnum.

Þau hafa enn sem komið er ekki tilkynnt miðann til lögreglu og kveðst Magnús ekki gera ráð fyrir að það verði gert. „Við vonum að þetta hafi bara verið einangrað atvik,“ segir hann.