Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Um 4,5 milljarðar út úr ferðaábyrgðasjóði

Mynd með færslu
 Mynd: Pixar
Stefnt er að því að opna fyrir umsóknir í nýjan ferðaábyrgðasjóð í þessari viku. Ferðamálastjóri býst við því að um hundrað ferðaskrifstofur sæki um lán til að endurgreiða pakkaferðir. Í heild eigi lánveitingarnar eftir að nema um 4,5 milljörðum króna. 

 

Ríkissjóður ber ábyrgð á skuldbindingum sjóðsins. Tilgangur hans er að endurgreiða pakkaferðir sem voru afpantaðar eða blásnar af vegna heimsfaraldursins og tryggja þar með að réttindi neytenda séu virt.

Býst ekki við töfum

Frumvarp meirihluta atvinnuveganefndar um ferðaábyrgðasjóð var samþykkt í lok júní og áformin hlutu grænt ljós frá Eftirlitsstofnun EFTA í byrjun júlí. Til stendur að opna fyrir umsóknir í þessari viku en forsenda þess er að lögin verði birt í stjórnartíðindum. Skarphéðinn Berg Steinarsson, ferðamálastjóri, býst ekki við töfum.

Um 15 þúsund ferðir

Ferðamálastofa hefur fengið margar fyrirspurnir frá ferðaskrifstofum sem hafa í huga að sækja um lán. Skarphéðinn reiknar með því að hátt í hundrað ferðskrifstofur nýti sér sjóðinn og sæki um lán  vegna allt að 15 þúsund ferða sem féllu niður á tímabilinu frá 12. mars til 31. júlí. Hann býst við flestum umsóknum frá ferðaskrifstofum sem senda heimamenn út,  mikið sé pantað af slíkum ferðum á vorin. Hann býst líka við umsóknum frá ferðaskrifstofum sem skipuleggja Íslandsferðir fyrir erlenda ferðamenn. 

Gæti bjargað Tripical 

Fyrirtækin geta sótt um lán úr sjóðnum fram til 1. september. Ferðaskrifstofan Tripical lenti í miklum vandræðum í vor, var ófær um að endurgreiða Ítalíuferð sem útskriftarnemar við Menntaskólann á Akureyri bókuðu og bauð þeim ýmsa kosti í staðinn, meðal annars vikuferð til Hellu. Elísabet Agnarsdóttir, einn eiganda, segist hafa vonast eftir þessu úrræði, þetta hafi nágrannalönd okkar verið að gera. Hún segir að hugsanlega bjargi lánin fyrirtækinu frá þroti, þó auðvitað þurfi að greiða þau til baka og enn sé óljóst hvernig málin þróist í ferðaþjónustunni.  

Greiða til baka á sex árum

Ferðaskrifstofurnar þurfa að leggja fram lista yfir ferðir sem þær þurfa að endurgreiða og fá svo lánað fyrir endurgreiðslunum. Þær eiga svo að greiða lánið til baka á allt að sex ára tímabili. Skarphéðinn áætlar að sjóðurinn eigi eftir að úthluta um 4,5 milljörðum króna en segir erfitt að segja nákvæmlega til um umfangið.

Samtök ferðaþjónustunnar segja kjörin sambærileg og á stuðningslánunum, 3,15% vextir. Þau verði ekki mikið betri. 

Ráðherra fylgist með lánveitingunum

 Í lögunum er kveðið á um að Ferðamálastofa geri ráðherra grein fyrir fjölda lánsumsókna og fjárhæð þeirra á tveggja mánaða fresti. 
Við gjaldþrot nýtur krafa sjóðsins sama forgangs og aðrar kröfur sem fjallað er um í lögum um gjaldþrotaskipti. Þá öðlast sjóðurinn kröfu í tryggingu ferðaskrifstofunnar.