Stjarnan snýr aftur á fótboltavöllinn í kvöld

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Stjarnan snýr aftur á fótboltavöllinn í kvöld

13.07.2020 - 11:37
Fjórir leikir eru í sjöttu umferð Pepsi Max deildar karla í fótbolta í kvöld. Lið Stjörnunnar leikur sinn fyrsta leik frá 21. júní þegar liðið sækir Val heim.

Síðasti leikur Stjörnunnar var 4-1 sigur á Fjölni þann 21. júní síðastliðinn. Nokkrum dögum síðar kom upp kórónaveirusmit í leikmannahópnum og við tók sóttkví. Leikjum Stjörnunnar gegn KA, FH og KR var frestað þar til í haust.

Stjarnan vann báða leikina sem liðið náði að spila í júní og er því með 6 stig og er í 8. sæti. Lítið er að marka stöðuna þar sem Stjarnan á 2-4 leiki til góða á liðin í kringum sig.

Stjarnan sækir Val heim klukkan 19:15 í kvöld og getur með sigri jafnað við Valsmenn að stigum. 

Á sama tíma í kvöld mætast líka KR og Breiðablik á Meistaravöllum og FH og Fylkir í Kaplakrika. KR, Fylkir og Valur geta öll komist upp fyrir Breiðablik og ÍA með sigri í kvöld en Breiðablik trónir á toppi deildarinnar með 11 stig, stigi meira en ÍA sem vann Gróttu 4-0 í gær. 

Klukkan 18 er fyrsti leikur dagsins þar sem KA tekur á móti Fjölni í botnslag. Fjölnir er í neðsta sæti deildarinnar með 1 stig en KA hefur stigi meira en á leik til góða. Grótta situr í næsta sæti fyrir ofan KA með 4 stig.

Leikir kvöldsins:

Kl. 18:00 KA - Fjölnir
Kl. 19:15 FH - Fylkir
Kl. 19:15 KR - Breiðablik
Kl. 19:15 Valur - Stjarnan