Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Sjö tonn af varningi frá AliExpress bíða tollmeðferðar

13.07.2020 - 19:25
Mynd: RÚV/Kristinn Þeyr / RÚV/Kristinn Þeyr
Póstinum barst í síðustu viku sending frá Kína sem innihélt um það bil sjö tonn af varningi sem Íslendingar hafa pantað á Aliexpress síðustu mánuði. Von er á nokkrum tonnum til viðbótar í vikunni.

Kínverska netverslunin Ali Express nýtur vinsælda á Íslandi en vegna COVID-faraldursins hafa sendingar þaðan ekki skilað sér. Eflaust hafa einhverjir verið orðnir úrkula vonar um að fá vörurnar í hendur en nú er vonarglæta því póstinum hefur borist sending.

„Við vorum að fá í síðustu viku rúmlega fimm tonn og síðan fengum við líka aukasendingu þannig að okkur reiknast til að við séum komin með í hús sjö tonn af Kínasendingum. Og meira á leiðinni í þessari viku,“ segir Sesselja Birgisdóttir, framkvæmdastjóri þjónustu- og markaðssviðs Íslandspósts.

Beðið síðan í mars

Þetta eru sendingar sem hafa safnast upp frá því COVID-faraldurinn braust út í lok febrúar eða byrjun mars. Gámurinn kemur ekki beint frá Kína heldur Frankfurt. Þar hafa vörurnar frá Kína safnast upp og gámurinn kom sjóleiðina til Íslands.

Aðrar leiðir hafa einnig að vera að opnast og það má því segja að vörurnar flæði inn í móttökustöð Póstsins þessa dagana. Þótt vörurnar séu innan seilingar gætu viðtakendur þó þurft að bíða nokkra daga til viðbótar. „Þetta þarf náttúrlega að fara í gegnum tollameðferð og það þarf að skrá allar sendingar og annað þannig að þetta tekur alltaf einhvern smá tíma já.“

Enn hnökrar í Kína

Þótt póstsamgöngur séu smám saman að færast í eðlilegt horf er stíflan ekki alveg brostin. Sesselja segir að enn séu hnökrar í póstsendingum frá Kína þannig að viðskiptavinir Aliexpress gætu þurft að bíða eitthvað eftir vörunum sínum þótt biðin taki ekki marga mánuði eins og í þessu tilfelli.