Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Segir brotthvarf Ingibjargar Sólrúnar vera aðför að ÖSE

13.07.2020 - 18:37
Mynd með færslu
 Mynd: Jón Víðir Hauksson - RÚV
Utanríkisráðherra segir það áhyggjuefni að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og aðrir forstjórar hjá ÖSE, Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, láti af störfum eftir að nokkur aðildarríki lögðust gegn því að þau fengju að starfa áfram.

Eins og fréttastofa greindi frá fyrr í dag lætur Ingibjörg Sólrún af störfum sem forstjóri Lýðræðis- og mannréttindastofnunar ÖSE á laugardag. Hún var ráðin forstjóri fyrir þremur árum, á sama tíma og tveir aðrir forstjórar tóku við hjá öðrum undirstofnunum ÖSE og nýr framkvæmdastjóri ÖSE var skipaður. Ráðning þeirra fjögurra hélst í hendur og framlenging á störfum þeirra átti að gera það einnig, en öll sóttust þau eftir að starfa áfram.

Fulltrúi Tadsíkistan og og Tyrklands lögðust gegn því að Ingibjörg héldi áfram, en áður höfðu Tadsíkar tekið undir með Aserbaídsjan að forstjóri stofnunar sem stendur vörð um frelsi fjölmiðla héldi áfram sínum störfum.

Hefur sinnt starfi sínu af heiðarleika

Ástæða fyrir aðförinni gegn Ingibjörgu Sólrúnu var sögð óánægja með að hún hefði ekki beitt sér fyrir því að útiloka frjáls félagasamtök frá fundum stofnunarinnar.

„Ég harma þessa niðurstöðu og hún er áhyggjuefni. Þetta er auðvitað ekki annað en aðför að stofnuninni. Hvað okkar fulltrúa varðar þá er ég ásamt miklum meirihluta aðildarríkja þeirrar skoðunar að hún hafi sinnt starfi sínu af heiðarleika og fagmennsku og í samræmi við umboð sitt,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir.

Á fundi aðildarríkjanna á dögunum varð svo endanlega ljóst að sátt um áframhaldandi störf þeirra væri ekki í augsýn og því búið að auglýsa allar fjórar stöðurnar lausar. Ingibjörg og hin þrjú láta af störfum strax á laugardag þegar skipunartími þeirra rennur formlega út og framhaldið er óljóst.

„Auðvitað ekki góðar fréttir“

Hvað þýðir það fyrir stofnunina að þessi lönd geti sett allt í uppnám á þennan hátt?

„Það eru auðvitað ekki góðar fréttir, svo ekki sé dýpra í árinni tekið. Þetta eru mjög fá ríki sem hafa beitt sér með þeim hætti sem raun ber vitni. En það er nóg, því það verður að vera samstaða um þessa hluti. Við erum auðvitað að sjá núna að það eru viðsjárverðir tímar í alþjóðamálum og þetta er kannski ein birtingarmynd þess,“ segir Guðlaugur Þór.