
Pólverjar á Íslandi vildu ekki Duda sem forseta
3.174 atkvæði voru greidd í pólska sendiráðinu á Íslandi í seinni umferð kosninganna. 79,8 prósent atkvæðanna, eða 2.533 atkvæði, sem greidd voru hér á landi voru handa Trzaskowski en 20,20 prósent, eða 641 atkvæði, studdu Duda.
Alls höfðu 4.520 kjósendur rétt til þess að greiða atkvæði í kosningunum í pólska sendiráðinu. Kjörsókn hér var meiri en í Pólandi þar sem hún var 68 prósent, því 71 prósent þeirra sem gátu kosið greiddu atkvæði. Það þykir mjög góð kjörsókn í pólskum forsetakosningum.
Afar mjótt var á munum alla kosningabaráttuna og yfirleitt munaði aðeins um einu prósentustigi í skoðanakönnunum á milli frambjóðendanna tveggja sem komust áfram í seinni umferð kosninganna. Kjörstaðir í Póllandi lokuðu í gærkvöldi en Duda var ekki lýstur sigurvegari fyrr en seint í morgun. Duda hlaut á endanum 51,2 prósent atkvæða en Trzaskowski 48,8 prósent.
Ólíkt því sem gerist í íslenskum kosningum þá eru atkvæði í pólskum kosningum talin á kjörstöðum og þess vegna fást ítarlegri upplýsingar um hvar frambjóðendur fengu sín atkvæði. Atkvæði voru talin í pólska sendiráðinu í Reykjavík og niðurstöðurnar birtar á kosningavef pólskra stjórnvalda.
Sé rýnt í niðurstöður kosninganna eftir héruðum í Póllandi má sjá að Duda sótti mest fylgi sitt til austari stjórnsýslusvæða landsins. Duda fékk bestu kosningu sína, 70,9 prósent akvætða, í Neðri Karpatíu, landamærahéraði við Slóvakíu og Úkraínu. Vestast í Póllandi fékk Trzaskowski mun betri kosningu.