
Nýjar reglur um heimkomu hafa tekið gildi
Tvö hópsmit hér á landi tengjast komum Íslendinga frá útlöndum eftir að tekin var upp skimun á landamærastöðvum. Viðkomandi greindust ekki með COVID-19 fyrr en nokkrum dögum eftir komuna til Íslands. Fleiri höfðu þá smitast og fjöldi fólks þurfti að fara í sóttkví.
Dagurinn í dag markar líka tímamót með öðrum hætti. Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, tilkynnti fyrir viku að síðustu sýnin sem fyrirtækið afgreiði úr landamæraskimun séu þau sem berast fyrirtækinu í dag. Því þarf sýkla- og veirufræðideild Landspítala Íslands að sjá um allar rannsóknir á sýnum frá og með morgundeginum.
Stefnt er að óbreyttu fyrirkomulagi á skimun á landamærunum út júlí.
Um einstaklinga sem ber að viðhafa heimkomusmitgát gildir að þeir skuli:
- ekki fara á mannamót eða veislur þar sem fleiri en tíu manns eru saman komnir,
- ekki vera í samneyti við fólk sem er í aukinni áhættu fyrir alvarleg veikindi/viðkvæma hópa,
- gæta að tveggja metra reglunni í samskiptum við aðra,
- ekki heilsa með handabandi og forðast faðmlög,
- huga vel að einstaklingsbundnum sóttvörnum.
Einstaklingum sem ber að viðhafa heimkomusmitgát er hins vegar heimilt að:
- nota almenningssamgöngur til að komast á áfangastað,
- fara í bíltúra,
- fara í búðarferðir,
- hitta vini og kunningja með ofangreindum takmörkunum.