Nokkur skjálftavirkni víða um og við landið

13.07.2020 - 00:34
Mynd með færslu
Jörð hefur hreyfst nokkuð í næsta nágrenni fjalladrottningarinnar, þjóðarfjallsins Herðubreiðar, upp á síðkastið.  Mynd: Einar Rafnsson - RÚV
Jörð heldur áfram að skjálfa á Reykjanesi og norður af landinu þótt töluvert hafi dregið úr skjálftavirkni á þessum svæðum að undanförnu. Þá hefur jörð einnig nötrað á hálendinu og varð stærsti skjálftinn í gær skammt vestur af Herðubreiðartöglum. Sá varð klukkan 21.24 og mældist 3,0 að stærð. Honum fylgdu nokkrir minni skjálftar, þeir stærstu 2,0 og 2,1 að stærð.

Frá miðnætti í fyrrakvöld hafa alls orðið sex skjálftar á hálendinu, yfir 2 að stærð, þar af fjórir í nágrenni Herðubreiðar, einn í Bárðarbungu og einn í Básum. Skjálftahrinan norður af landinu heldur áfram og hafa fjórir skjálftar á þeim slóðum farið yfir 2 að stærð, tveir þeirra á ellefta tímanum í gærkvöld. Loks má nefna tvo skjálfta í næsta nágrenni Grindavíkur, sem báðir voru 2,2 að stærð.  

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi