Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Mikið álag á konur í samkomubanni

13.07.2020 - 11:49
Mynd: Unak.is / Háskólinn á Akureyri
Daglegt líf reyndist fjölskyldum hér á landi býsna snúið meðan farsóttin geisaði. Álag jókst til muna þegar verkefnin færðust inn á heimilin, sérstaklega á konur. Þetta sýna frumniðurstöður nýrrar rannsóknar um líðan fjölskyldna á tímum kórónuveirunnar.

Skrifuðu dagbók í tvær vikur

Andrea Hjálmsdóttir og Valgerður S. Bjarnadóttir, fræðikonur við Háskólann á Akureyri, vinna rannsóknina. Um fimmtíu fjölskyldur tóku þátt og skrifuðu dagbók í tvær vikur þegar farsóttin stóð sem hæst. Andrea var gestur á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun. 

Heimilin urðu vinnustaðir og skólar

„Allt í einu urðu heimilin vinnustaðir, leikskólar, skólar fyrir utan það að vera þetta athvarf sem við höfum og jafnvel staðir til íþróttaiðkunar þannig að það var rosa mikið sem færðist inn á heimilin. Þannig að við ákváðum að fara af stað með svona dagbókarfærslurannsókn þar sem við myndum fá þátttakendur til þess að skrifa daglega áætlaðan tíma sem það áætlaði í ákveðin störf. Sérstaklega heimilisstörf, heimavinnu barna, svona hafa ofan af fyrir börnum, sjá um íþróttaæfingar fyrir börn og annað slíkt og hvort að það næði og hvort að það næði að sinna vinnu eða ekki. Það var svona já og nei spurning, ansi oft svarað með nei,“ segir Andrea.

Mikið álag á konum

Hún segir niðurstöðurnar sýna að daglegt líf hafi verið býsna snúið á þessum tíma, sérstaklega fyrir konur.

„Í þessari rannsókn, eins og komið hefur fram í öðrum rannsóknum um verkaskiptingu á heimilum á er verkstjórnin mjög mikið á herðum kvenna. Og þegar öll verkefnin koma inn á heimilið þá verður sá hluti eiginlega meira yfirþyrmandi og þær tala mjög mikið um mikla streitu sem þær upplifa og einmitt þessi sko yfirþyrmandi, nú er ég alveg búin á því og þær líka nokkrar tala um það að það hafi einhvern veginn opinberast fyrir þeim að verkaskipting á heimilinu var ekki eins jöfn og þau hjónin hafi gengið út frá,“  segir Andrea. 

Nánar var rætt við Andreu á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun.