Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Lokatölur komnar í Póllandi - Andrzej Duda fékk 51,03%

13.07.2020 - 20:05
Mynd: EPA-EFE / PAP
Andrzej Duda fékk 51,03% atkvæða samkvæmt lokatölum forsetakosninganna í Póllandi. Aldrei hefur munurinn verið minni í forsetakosningum þar í landi frá falli kommúnismans en mótframbjóðandinn Rafal Trzaskowski hefur viðurkennt ósigur.

Lokatölurnar voru birtar rétt fyrir klukkan sjö í kvöld.  Þótt einungis muni um tveimur prósentum þá eru það samt sem áður um 420.000 atkvæði og Trzaskowsi viðurkenndi ósigur síðdegis í dag. Trazkowski fékk 48,97% atkvæða.

Gerðu athugasemdir við orðræðu forsetans

Nú er ljóst að stjórnarflokkurinn Lög og réttlæti verður áfram með sinn frambjóðanda í forsetastól ásamt meirihluta á þinginu. Flokkurinn hefur lofað og staðið við ýmsar umbætur, til dæmis veglegar barnabætur. En hann líka verið fjandsamlegur í garð minnihlutahópa og öryggis og samvinnustofnun Evrópu, sem sinnir kosningaeftirliti, sá í dag ástæðu til að gera athugasemdir. „Við höfðum áhyggjur af óvæginni orðræðu, andúð í garð hinsegin fólks, útlendingaótta og gyðingahatri. Og þá einkum í kosningabaráttu forsetans og í ríkisfjölmiðlunum,“ segir Thomas Boserup yfirmaður kosningaeftirlits. 

Það má segja að pólska þjóðin sé klofin, Duda nýtur mest fylgis hjá þeim sem eldri eru, búa á landsbyggðinni og hafa litla menntun. Yngra fólk og menntaðra kaus frekar Trzaskowski. Þá er talsverður munur á því hvernig Pólverjar búsettir erlendis kusu, rúm 74% þeirra hefði vilja Trzaskowski sem forseta. Þá vilja nærri 80% kjósenda hér á Íslandi frekar sjá Trazaskowski í forsetastólnum. 

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Joanna Marcinkowska er sérfræðingur í málefnum innflytjenda.

Joanna Marcinkowska, sérfræðingur í málefnum innflytjenda, segir erfitt að segja til um hvers vegna þessi mikli munur sé á pólskum kjósendum hér og heildarniðurstöðunni. „Ég er ekki alveg viss en það eru svipaðar niðurstöður til dæmis í öllum Norðurlöndunum, í rauninni í flestum Evrópuríkjum. Gæti verið aldurssamsetning innflytjenda,“ segir hún og bætir við að innflytjendur sé oftar í yngri kantinum og í leit að atvinnu. 

Vonaðist eftir breytingum

Hún er sjálf frá Póllandi og segist hafa vonast eftir breytingum. „Mér finnst það sem er að gerast núna í Póllandi óásættanlegt. Sérstaklega varðandi minnihlutahópa, til dæmis hinsegin fólk. Þetta er eitthvað sem ég get ekki samþykkt,“ segir Joanna. 

Þrjú ár eru í næstu kosningar svo verður einhver bið á breytingum. Hingað til hefur stjórnarandstöðuna vantar sterkan leiðtoga, í raun hefur hann vantað allt frá því að Donald Tusk, fyrrum formaður flokks Borgaravettvangsins og forsætisráðherra Póllands, hvarf úr pólskri pólitík 2014. „Trzaskowski sýndi að hann getur verið leiðtogi stjórnarandstöðu og ég vona sannarlega að hann muni sameina fólk og eitthvað muni gerast eftir þrjú ár,“ segir Joanna.