
Heimsfaraldurinn enn í hröðum vexti
Mesta fjölgun milli daga hingað til
Samkvæmt tölum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar fjölgaði staðfestum COVID-19 tilfellum um 230.370 í heiminum öllum frá laugardegi til sunnudags. Er þetta mesta fjölgun sem orðið hefur á einum sólarhring til þessa. Þá reiknast sérfræðingum AFP-fréttastofunnar til að smittilfellum hafi fjölgað um nær tvær og hálfa milljón það sem af er júlímánuði, sem líka sýnir að útbreiðsla farsóttarinnar er enn í vexti.
Fjórðungur nýsmita í Bandaríkjunum
Mest hefur fjölgunin verið í Bandaríkjunum, Brasilíu, Indlandi og Suður Afríku, bæði síðasta sólarhringinn og síðustu vikur. Samkvæmt tölum Johns Hopkins háskólans bandaríska eru staðfest smit nú að nálgast þrettán milljónir, dauðsföll eru tæplega 570.000 en rúmlega sjö milljónir hafa náð sér af veikindunum.
Að jafnaði greinist rúmlega fjórðungur allra nýsmita í Bandaríkjunum um þessar mundir. Þar hafa 3,3 milljónir smita verið staðfest og dauðsföllin eru orðin 135.000.
Staðfest tilfelli í Brasilíu nálgast 1,9 milljónir
Opinber tala í Brasilíu hljóðar upp á tæplega 1,9 milljónir smita, en mjög líklegt þykir að mun fleiri hafi sýkst, þótt það hafi hvergi verið skráð. Það á reyndar líka við um fjölmörg ríki önnur í flestum eða öllum byggðum heimsálfum. Dauðsföll sem rakin hafa verið til COVID-19 eru orðin rúmlega 72.000 í Brasilíu.
Sem fyrr segir breiðast kórónaveiran og COVID-19 hratt út í Suður Ameríku, og er þar nánast ekkert land álfunnar undanskilið. Í Argentínu fóru staðfest tilfelli upp fyrir 100.000 í gær. en það eru Perú og Chile sem koma næst á eftir Brasilíu, með vel yfir 300.000 staðfest smit hvort um sig. Kólumbía er svo í fjórða sæti Suður-Ameríkuríkja, á undan Argentínu, með 145.000 skráð tilfelli.
Dauðsföll í Mexíkó nú fleiri en á Ítalíu
Bretar eru í þriðja sæti á þessum drungalega lista yfir fjölda dauðsfalla af völdum þessarar farsóttar. Þar hafa 44.900 andlát verið skrifuð á COVID-19. Í gær gerðist það svo að Mexíkó fór upp fyrir Ítalíu á þessum sama lista og er þar í fjórða sæti. Rétt rúmlega 35.000 hafa dáið úr pestinni þar í landi, en rétt tæplega 35.000 á Ítalíu.
Indland og Rússland skera sig úr í Asíu og Evrópu
Í Asíu er það fyrst og fremst Indland sem veiran herjar á þessa dagana og þar bætast nú hátt í 30.000 manns í hóp smitaðra á dag og fer fjölgandi með degi hverjum. Í Afríku er ástandið langverst í Suður Afríku, þar sem um og yfir 10.000 nýsmit hafa greinst daglega síðustu daga.
Í Evrópu sker Rússland sig úr. Þar greinast enn ríflega 6.500 kórónaveirusmit á dag. Talsvert hefur þó dregið úr fjölgun smita frá því sem mest var, því snemma í maí bættust allt að 12.000 manns í hóp smitaðra á hverjum degi og hátt í níu þúsund smit greindust þar daglega fram yfir miðjan júní.
Þar sem sóttin geisar heitast
Hér að neðan eru listar sem sýna annars vegar fjölda staðfestra smittilfella í þeim 20 löndum heims þar sem smit eru flest, og hins vegar fjölda dauðsfalla sem rakin hafa verið til COVID-19, í þeim 20 löndum sem þau eru flest. Upplýsingarnar eru sóttar á yfirlitssíðu Johns Hopkins háskólans um útbreiðslu COVID-19, kl. 03.45 aðfaranótt 13.07.2020.
Staðfest smittilfelli
- Bandaríkin 3.302.695
- Brasilía 1.864.681
- Indland 849.553
- Rússland 726.036
- Perú 326.326
- Chile 315.041
- Mexíkó 299.750
- Bretland 291.154
- Suður Afríka 276.242
- Íran 257.3030
- Spánn 253.908
- Pakistan 248.872
- Ítalía 243.061
- Sádi Arabía 232.259
- Tyrkland 212.993
- Frakkland 208.015
- Þýskaland 199.919
- Bangladess 183.795
- Kólumbía 145.362
- Kanada 109.348
Dauðsföll
- Bandaríkin 135.203
- Brasilía 72.100
- Bretland 44.904
- Mexíkó 35.006
- Ítalía 34.954
- Frakkland 30.007
- Spánn 28.403
- Indland 22.674
- Íran 12.829
- Perú 11.870
- Rússland 11.318
- Belgía 9.782
- Þýskaland 9.071
- Kanada 8.829
- Chile 6.979
- Holland 6.156
- Svíþjóð 5.526
- Kólumbía 5.426
- Tyrkland 5.363
- Pakistan 5.197