Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Heimkomusmitgát: „Biðjum fólk að hugsa um tilganginn“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Bragi Valgeirsson
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, segir að kanni fólk tilganginn með reglum um heimkomusmitgát, liggi nokkuð ljóst fyrir hvað megi og hvað ekki. Frá og með deginum í dag þurfa íslenskir ríkisborgarar og fólk búsett hér að halda sig til hlés í fjóra til sex daga eftir komuna til landsins. Það er svo boðað aftur í sýnatöku. 

 

Í leiðbeiningum sóttvarnalæknis kemur fram að fólk í þessum hópi eigi að takmarka samneyti sitt við annað fólk, sleppa knúsum og kossum, þvo, spritta og virða tveggja metra regluna. Það má ekki fara á mannamót með fleiri en tíu og ekki hitta þá sem tilheyra viðkvæmum hópum. Það má aftur á móti nota almenningssamgöngur til að komast á áfangastað og fara í búðarferðir. Þarna segir Þórólfur verið að tala um eina ferð og það að kaupa nauðsynjar í verslunum, ekki þræða búðirnar í Kringlunni. „Það er náttúrulega mjög erfitt að koma með nákvæmar útlistingar og skilgreiningar á öllu sem fólki dettur í hug hvað það megi gera en við biðjum fólk að hugsa um hver tilgangurinn með þessu er. Tilgangurinn er sá að fólk sem hugsanlega er smitað reyni að útsetja eins fáa fyrir smiti eins og mögulegt er. Við erum að biðja fólk um að halda sem mest kyrru fyrir og skilgreina það á sem skýrastan máta. VIð erum að biðja fólk um að fara á einn stað eða eins fáa og mögulegt er og halda þar mestmegnis fyrir. Við biðjum fólk að skoða vel tilganginn og ef að fólk gerir það þá eru svörin við þessum spurningum í flestum tilvikum nokkuð augljós,“ segir Þórólfur.  

Hægt verður að láta taka seinna sýnið í Orkuhúsinu í Reykjavík og hjá heilsugæslustöðvum víða um land. Seinni sýnatakan er ókeypis. 

Fólk með tengsl við samfélagið

Markmiðið með nýju reglunum er að draga úr hættunni á því að röng niðurstaða úr prófi á landamærum leiði til hópsmita hér. Tvö slík hópsmit hafa komið upp á síðustu vikum. Þótt reglurnar nái eingöngu til íslenskra ríkisborgara og þeirra sem búa hér á landi eru aðrir sem hafa víðfeðmt tengslanet á Íslandi hvattir til að fylgja sömu reglum.