
Fóru gegn Ingibjörgu Sólrúnu sem hættir hjá ÖSE
Fimmtíu og sjö aðildarríki eru innan Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu. Ingibjörg Sólrún var ráðin forstjóri Lýðræðis og mannréttindastofnunar ÖSE fyrir þremur árum, á sama tíma og tveir aðrir forstjórar hjá öðrum stofnunum ÖSE og nýr framkvæmdastjóri tóku við. Ráðning þeirra hélst í hendur og framlenging á störfum þeirra allra átti að gera það einnig.
Fulltrúi Aserbaídsjan mótmælti því hins vegar á dögunum að Frakkinn Harlem Désir héldi áfram sem forstjóri stofnunar ÖSE sem stendur vörð um frelsi fjölmiðla, en hann hefur verið ötull talsmaður fjölmiðlafrelsis í starfi sínu. Fulltrúi Tadsíkistan tók undir mótmæli Asera, en Samtök evrópskra blaðamanna sendu í kjölfarið frá sér yfirlýsingu þar sem ákvörðun ríkjanna var hörmuð og sögð til þess fallin að grafa undan frelsi fjölmiðla.
Statement in support of the mandate of the @OSCE_RFoM ever more important in fight for #mediafreedom via @efjeurope https://t.co/URqCgwlmaF #osce
— EFJ (@EFJEUROPE) July 13, 2020
Tadsíkar mótmæltu því svo einnig að Ingibjörg Sólrún héldi áfram sem forstjóri lýðræðis og mannréttindastofnunarinnar. Fulltrúi Tyrkja tók undir þau mótmæli, en ástæðan var sögð ósætti með að Ingibjörg Sólrún hafi ekki beitt sér fyrir því að útiloka frjáls félagasamtök frá fundum stofnunarinnar.
Á fundi aðildarríkjanna á dögunum var svo endanlega ljóst að sátt um áframhaldandi störf þeirra er ekki í augsýn og því er búið að auglýsa allar fjórar stöðurnar lausar. Ingibjörg og hin þrjú láta strax af störfum á laugardag þegar skipunartími þeirra rennur formlega út.
Ingibjörg Sólrún vildi sjálf ekki tjá sig um málið að svo stöddu þegar eftir því var leitað.