Fjórar líkamsárásir í gærkvöld og í nótt

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV/Kristján Þór Ingvarsson
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var kölluð út vegna fjögurra líkamsárása í gærkvöld og í nótt. Sú fyrsta var gerð rétt fyrir klukkan ellefu í gærkvöld en sú síðasta ekki fyrr en komið var undir morgun, rétt fyrir klukkan fimm.

Ráðist var á mann við Ingólfstorg þegar klukkuna vantaði tíu mínútur í ellefu í gærkvöld. Árásarmaðurinn beitti eggvopni og veitti manninum áverka á hálsi. Skurðurinn reyndist þó grunnur og var ekki talin þörf á aðgerð eftir að gert var að sárum mannsins á bráðadeild. Árásarmaðurinn var farinn af vettvangi þegar lögregla kom á staðinn.

Klukkan tólf mínútur í fimm í morgun var ráðist á konu í Hlíðunum í Reykjavík og ógnaði árásarmaðurinn henni með eggvopni. Maðurinn var handtekinn og færður í fangaklefa. 

Laust eftir miðnætti réðust tveir strákar og stúlka að ungum stúlkum við Barónsstíg í miðbæ Reykjavíkur og létu sig síðan hverfa. Forráðamönnum og Barnavernd var tilkynnt um atvikið en ekki er skráð að stúlkurnar hafi orðið fyrir áverkum.

Upp úr klukkan þrjú var ráðist á ungmenni í hverfi 110 en engir áverkar skráðir. Árásarmaðurinn var farinn þegar lögregla mætti á staðinn en atvikið tilkynnt forráðamönnum og Barnavernd.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi