Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Farið að reyna á í sýnatöku vegna aukinnar eftirspurnar

13.07.2020 - 12:16
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Farið er að reyna á þolmörk í sýnatöku á landamærum þar sem eftirspurn eftir því að koma til landsins eykst söðugt. Verkefnastjóri í forsætisráðuneytinu segir að verið sé að fara yfir valkosti, en sóttvarnasjónarmið séu hins vegar alltaf efst á blaði hjá stjórnvöldum.

Eins og fréttastofa greindi frá fyrir helgi hefur Icelandair fengið þau tilmæli að fella niður tvær til fimm flugferðir á viku út júlí svo hægt sé að viðhalda sýnatökum á Keflavíkurflugvelli, þar sem hámarks afkastageta er um tvö þúsund manns á dag. Fleiri flugfélög þurfi einnig að fella niður flug til Íslands.

Páll Þórhallsson, verkefnisstjóri í forsætisráðuneytinu, segir að ekki liggi fyrir hvort og þá hvenær fleiri löndum verði bætt á lista yfir örugg ríki, með Færeyjum og Grænlandi, þaðan sem ekki þarf að skima farþega.

„Það hefur svo sem alltaf verið viðbúið að þessi staða kæmi upp, að það færi að reyna á þessi mörk. Nú er að koma í ljós að eftirspurnin eftir því að koma til landsins er vaxandi. Nú erum við að koma að þeim tímapunkti að það reynir verulega á. Stjórnvöld hafa alltaf sagt að það eru sóttvarnasjónarmiðin sem eru efst á blaði. Þannig að ég held að það verði engin skref stigin nema sóttvarnalæknir sé sáttur við það,“ segir Páll.

Ekki komið upp hver þyrfti að greiða bætur

Fari svo að flugfélög þurfi að aflýsa ferðum til landsins vegna takmarkana í sýnatökum er einnig óljóst hver þarf að greiða bætur til farþega.

„Það er eitthvað sem yrði að leysa úr í framhaldinu ef sú staða kæmi upp.“

Gæti flugfélögin gert kröfu á stjórnvöld að greiða þessar bætur?

„Ég ætla ekki að tjá mig um það. Auðvitað getur hver sem er gert kröfu en hvort það sé fótur fyrir þeim það er annað mál,“ segir Páll.

Fylgjast með stöðunni og fara yfir valkosti

Páll segir að skimun á landamærum hafi almennt gengið vel fyrir sig, en nú séu flugfélög farin að lenda á fleiri tímum sólarhrings til þess að farþegar þurfi síður að bíða eftir sýnatöku. Samhæfingarteymi stjórnvalda fundar í dag um stöðuna, en það er sóttvarnalæknis að taka ákvörðun.

„Það er mjög grannt fylgst með stöðunni og margar fyrirspurnir frá flugrekendum um þetta. Það eru allir meðvitaðir um stöðuna og verið að fara yfir valkosti,“ segir Páll Þórhallsson, verkefnisstjóri í forsætisráðuneytinu.