Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Engin Drusluganga í ár – gefa út vefrit

13.07.2020 - 15:35
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Jón Þór Kristjánsson
Hin árlega Drusluganga verður ekki farin í Reykjavík þetta sumarið vegna kórónuveirufaraldursins. Í stað hennar hefur verið ákveðið að gefa út vefrit sem hefur fengið nafnið Drusla x Flóra. Vefritið kemur út í ágúst.

Markmiðið með vefritinu er að gefa fjölbreyttum hópi fólks tækifæri til að ræða femínisma og nauðgunarmenningu í öllum kimum samfélagsins, segir í tilkynningu til fjölmiðla í dag. Vefritið verður gefið út í samstarfi við Flóru útgáfu.

Druslugangan hefur verið farin í Reykjavík á hverju sumri síðan 2011 til þess að sýna þolendum kynferðisofbeldis samstöðu og krefjast betra réttarkerfis og betra samfélags. Gangan átti að fara fram laugardaginn 25. júlí næstkomandi og enda með útifundi á Austurvelli.

Vegna samkomutakmarkana í heimsfaraldri kórónuveirunnar var ákveðið að ekki væri hægt að halda gönguna með hefðbundnum hætti.

Flóra er vefmiðill um femínisma. Þar er fólki af öllum kynjum gefið tækifæri til þess að birta femínískt frumsamið efni.

birgirthh's picture
Birgir Þór Harðarson
Fréttastofa RÚV