Ekki lengur samstaða um grunngildi í mannréttindum

Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir segir andstöðu nokkurra ríkja við það að hún gegni áfram forstjórastarfi hjá Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, vera birtingarmynd þess að ekki sé lengur samstaða um ákveðin grunngildi í mannréttindum. Þá sé þetta til marks um að nú hafi þau ríki náð undirtökum í stofnuninni sem minni áhuga hafi á umbótum í mannréttindum.

Ingibjörg Sólrún hefur verið forstjóri Lýðræðis- og mannréttindastofnunar ÖSE í þrjú ár og hafði hug á því að gegna starfinu áfram. En í morgun fengu hún og tveir aðrir forstjórar hjá ÖSE þær fréttir að ekki yrði af því vegna andstöðu fáeinna ríkja af þeim tæplega sextíu sem skipa stofnunina. 

„Þetta kom mér náttúrulega ekki alveg að óvörum. Þetta er búið að vera að gerjast núna undanfarna daga. En ég hélt satt að segja að þessi aðildarríki sæju a.m.k. sóma sinn í því að sjá til þess að við gætum kannski starfað í einhverja mánuði og klárað ákveðin verk sem við erum að vinna í“, segir Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fráfarandi forstjóri Lýðræðis- og mannréttindastofnunar ÖSE.

Fulltrúar Aserb­aísjan og Tads­íkist­an andmæltu áframhaldandi ráðningu forstjóranna. Þá lögðust Tyrkir gegn Ingibjörgu Sólrúnu.

„Ég er náttúrulega líka búin að standa í ákveðnu stappi við þá í þessi þrjú ár sem ég hef starfað þarna,“ segir Ingibjörg Sólrún.

Tyrkir hafa verið andvígir þátttöku ýmissa félagasamtaka í fundum ÖSE og saka þau um að vera hryðjuverkasamtök. 

„Ég get ekki upp á mitt einsdæmi útnefnt samtök eða kallað þau hryðjuverkasamtök rétt si svona, sem eru ekki á neinum slíkum listum. Og það er enginn stuðningur við það heldur hjá öðrum aðildarríkjum ÖSE að það sé gert,“ segir Ingibjörg Sólrún.

Finnst þér þetta segja eitthvað um þróun lýðræðismála og mannréttinda?

„Já, ég held að þetta endurspegli þá krísu sem alþjóðlega stofnanir eru í og þennan skort á sannmæli sem núna er. Þegar ÖSE var stofnað í byrjun tíunda áratugarins þá voru allir voða bjartsýnir og það var sammæli um ákveðin grundvallarprinsipp í lýðræðis- og mannréttindamálum. Það er það ekki lengur. Og þetta er birtingarmynd þess. Og birtingarmynd þess að þeir sem hægast vilja fara í þessum málum, þeir eru komnir með undirtökin,“ segir Ingibjörg Sólrún.

Hún telur að það verði ekki vandalaust að skipa eftirmann hennar.

„Það er mjög erfitt fyrir einhvern að taka við við þessar aðstæður vegna þess að ef að þau ríki sem settu sig upp á móti mér, ef þeim fellur við þann kandídat, þá er ansi hætt við að ýmsum öðrum líki hann ekki,“ segir Ingibjörg Sólrún.

 

 

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi