Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

52 þúsund hafa sótt Hopp-appið

13.07.2020 - 07:00
Mynd með færslu
 Mynd: Nína Hjördís Þorkelsdóttir - RÚV
52 þúsund manns hafa skráð sig inn í smáforrit rafhlaupahjólaleigunnar Hopp. Tæp níutíu prósent þeirra hafa skráð sig inn í forritið með íslensku símanúmeri. Hopp hóf rekstur í fyrrahaust og hefur notendum fjölgað jafnt og þétt. Hjólunum hefur verið ekið samtals hátt í 500 þúsund kílómetra. 

Hopp er með 300 hjól á sínum vegum. Ægir Þorsteinsson framkvæmdastjóri segir að fyrirtækið noti hugbúnað sem greinir þörfina eftir svæðum hverju sinni. Þannig er hægt að ganga úr skugga um að hjól séu til staðar þar sem eftirspurnin er mest. 

Þjónustusvæði Hopps teygir sig frá Valhúsahæð á Seltjarnarnesi og austur í Vogahverfi í Reykjavík. Syðri mörk þess eru við Fossvog. Þjónustusvæðið var stækkað í maí og til stendur að færa út í kvíarnar í lok sumars. 

Hopp var fyrsta rafhlaupahjólaleigan sem hóf starfsemi hér á landi. Hún er önnur tveggja starfandi rafhlaupahjólaleiga í Reykjavík en hin heitir Zolo. 

Rafhlaupahjólum fjölgar í borgum Evrópu

Útleiga á rafhlaupahjólum er tiltölulega nýlegt fyrirbæri. Fyrstu leigunum án hleðslustöðva var komið á laggirnar árið 2017 í Santa Monica í Kaliforníu í Bandaríkjunum.

Rafhlaupahjólin hófu innreið sína í Evrópu ári síðar þegar fyrirtækin Lime og Bird opnuðu leigur í París árið 2018. Nú er fjöldi rafhlaupahjóla þar í borg nálægt tuttugu þúsund. Lime rekur nú rafhlaupahjólaleigur í fimmtíu evrópskum borgum og Bird í tuttugu. Notendum hefur fjölgað jafnt og þétt í flestum þessara borga og höfðar þjónustan bæði til ferðamanna og heimamanna. 

Mynd með færslu

Fleiri fyrirtæki hafa bæst við í hóp stórra rekstraraðila að undanförnu. Uber rekur nú leigur í tíu evrópskum borgum og sænska fyrirtækið VOI Technology hefur tryggt sér 80 milljóna fjármögnun til þess að byggja upp starfsemi sína. 

Við athugun fréttastofu á meðalmínútuverði í nokkrum stórborgum Evrópu kom í ljós að það er á bilinu 27 til 43 íslenskar krónur. Hjá öllum þeim leigum sem teknar voru til skoðunar þurfti að borga startgjald til þess að hefja ferð. Gjaldið var á bilinu 70 til 200 íslenskar krónur. 

Rafhlaupahjólaleigur er nú að finna í fjölmörgum höfuðborgum í Evrópu, þar á meðal öllum höfuðborgum Norðurlandanna. Þau hafa ekki rutt sér til rúms í Bretlandi en þau urðu fyrst lögleg þar í landi um mánaðamótin síðustu. Starfsemi flestra rafhlaupahjólaleiga í Evrópu byggist á því að smáforriti er halað niður í símann og það notað til þess að aflæsa hjólunum. Lefyilegur hámarkshraði er 20 til 25 kílómetrar á klukkustund. 

Sprenging í kaupum á einkarafskútum

Freyja Leópoldsdóttir, sölu-og markaðsstjóri S4S, sem meðal annars rekur verslunina Ellingsen, segir að sprenging hafi orðið á sölu rafhlaupahjóla að undanförnu. 

 

Mynd með færslu
Freyja Leópoldsdóttir, sölu- og markaðsstjóri S4S

Hún segir að eigendur rafhlaupahjóla noti þau í margvíslegum tilgangi. „Fólk er að nota þetta bæði sem farartæki til að koma sér frá A til B og líka sem leiktæki,“ segir hún. Freyja segir jafnframt að sumir kaupi rafhlaupahjól til þess að hafa í bílnum. „Sumir hafa þetta í bílnum, leggja til dæmis niður í bæ og skottast á hlaupahjólinu síðasta spölinn,“ segir hún. 

Freyja segist fullviss um að rafhlaupahjólin séu komin til að vera. Hún segir að þau henti vel fyrir reykvískar aðstæður enda er borgin dreifbýl og vegalengdir gjarnan langar. 

Óheimilt að nota hjólin á akbrautum

Regluverk í kringum notkun rafhlaupahjóla hefur verið talsvert í umræðunni samhliða vinsældum þeirra. Hér á landi er hámarkshraði er 25 kílómetrar á klukkustund. Í umferðarlögum kemur fram að óheimilt sé að aka þeim á akbraut. Að öðru leyti lúta þau sömu reglum og reiðhjól. Samkvæmt lögum þurfa börn yngri en sextán ára að nota hjálm á reiðhjólum og hið sama gildir því um rafmagnshlaupahjól.

 

Ekki er getið um neitt aldurstakmark á rafhlaupahjól í umferðarlögum. Hopp leigir hjól sín ekki til barna undir 18 ára aldri. Sama regla er algeng meðal sambærilegra fyrirtækja í öðrum borgum. 

Aðspurð hvort Ellingsen selji börnum undir 18 ára aldri rafmagnshlaupahjól segir Freyja að ákvörðunin sé foreldranna. „Við ætlum að að sjálfsögðu ekki að reyna að hafa vit fyrir foreldrum en brýnum auðvitað fyrir þeim að nota viðeigandi öryggisbúnað,“ segir hún. Hún nefnir jafnframt að sum hjól séu ekki hönnuð með smávaxna notendur í huga. „Stundum sér maður lítil börn sem ná varla upp í stýrið,“ segir hún. 

Freyja segir að lykilatriði sé að taka ábyrgð, fara varlega og nota réttan öryggisbúnað.