Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Vilja draga úr matarsóun um helming fyrir árið 2030

Mynd með færslu
 Mynd: petrr - Wikimedia Commons
Starfshópur um aðgerðir gegn matarsóun leggur til að sett verði markmið um að draga úr matarsóun um helming á næstu tíu árum. Hver Íslendingur sóar 90 kílóum af mat árlega.

Starfshópurinn skilaði skýrslu með tillögum um aðgerðir gegn matarsóun til Guðmundar Inga Guðbrandssonar, umhverfis- og auðlindaráðherra, þann 23. júní síðastliðinn. Þar er lagt til að sett verði markmið um að draga úr matarsóun um 30 prósent fyrir árið 2025 og um 50 prósent fyrir árið 2030.

Stjórnvöld innleiði hagræna hvata til að draga úr matarsóun

Í skýrslunni eru tuttugu og fjórar tillögur, fjórtán þeirra snúa að aðgerðum á ábyrgð stjórnvalda, en tíu um aðgerðir á ábyrgð atvinnulífsins. Stjórnvöld komi á samstarfi atvinnulífs og stjórnvalda gegn matarsóun, hvetji til rannsókna á orsökum matarsóunar á heimilum, bæti menntun um matarsóun og innleiði hagræna hvata sem draga úr matarsóun. Á ábyrgð atvinnulífs verði meðal annars vitundarvakning meðal frumframleiðenda og matvælaframleiðenda, samstilling framboðs og eftirspurnar í smásölu, forgangsverkefni veitingamanna og að allar vörur fari út um réttar dyr smásala. 

Nýjar kröfur um mælingar á matarsóun

Í skýrslunni kemur fram að Evrópusambandið hafi ákveðið árið 2018 að aðildarríkin skyldu grípa til ráðstafana til að stemma stigu við matarsóun, í samræmi við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Það sama gildi um önnur aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins, eins og Ísland. Til að fylgjast með árangrinum beri að mæla umfang matarsóunar og mælingar hefjist árið 2020. Því leggur starfshópurinn til að Umhverfisstofnun hafi umsjón með árlegum mælingum hérlendis.

Starfshópurinn er skipaður fulltrúum úr allri virðiskeðju matvæla allt frá ræktun til framleiðslu og neyslu. Tillögurnar verða í samráðsgátt stjórnvalda til 31. júlí næstkomandi, en hópurinn leggur áherslu á að tillögurnar verði kynntar haghöfum og almenningi í opnu samráðsferli.