„Það er engin venjuleg manneskja“

Mynd: Ólöf Erla Einarsdóttir / RÚV

„Það er engin venjuleg manneskja“

12.07.2020 - 09:12

Höfundar

„Hugmyndin er að opna símaskrá, benda á eitthvað nafn, og hringja í viðmælanda og fá sögu frá honum,“ segir Brynja Þorgeirsdóttir sem ýtir úr vör viðtalsþættinum Hnit á mánudag á Rás 1. Hún velur viðmælendur sína handahófskennt.

Brynja segir að manneskjan sé stórbrotin og allir hafi sögur að segja, nú eru engar prentaðar símaskrár lengur en hún notast við tölvuforrit sem velur hnit af handahófi á landakorti og talar svo við þann sem að býr sem næst þeim. „Ég rammaði bara inn Ísland og bað vefsíðuna um að kasta pílu. Svo þysjaði ég inn kortið og fann þá heimilisfangið.“ Það er þó ýmsum vandkvæðum bundið með land sem er jafn strjálbýlt og Ísland, og oftar en ekki lenti hún úti í miðju vatni, á golfvelli eða skógræktarsvæði. „Þá fór ég stundum að skoða, einu sinni lenti ég á leikvelli í Hlíðunum, þá skoða ég bara hverjir búa þar í kring.“

Hún segir merkilegt hvað fólk hafi undantekningarlaust tekið vel í erindið. Hugmyndin að þættinum kemur frá bandarískum blaðamanni sem hefur haldið úti blaðadálki í 30 ár þar sem hann tekur viðtöl við fólk af handahófi. „Seinna voru gerðir sjónvarpsþættir á CBS. Ég hugsaði þetta sem svona prufu fyrir mögulegan sjónvarpsþátt, þar sem maður getur farið á staðinn, hnitin.“ Brynja hefur verið lengi í fjölmiðlum og hún trúir því staðfastlega að hver einasta manneskja hafi merka sögu að segja. „Þegar fólk byrjar að koma saman koma þessar sögur upp. Við höldum oft að fólk sé ósköp venjulegt en það er engin venjuleg manneskja. Hún er ekki til.“

Þættirnir eru fjórir talsins og yngsta manneskjan sem hún ræddi við er 29 ára og sú elsta 62. Fyrsti viðmælandinn, Inga Hlín Pálsdóttir, lenti í örlagaríku samtali fyrir tilviljun. „Það sneri öllu á hvolf, var svona örlagapunktur. Í flugvél. Það var mjög góð saga.“ Annar viðmælandi hennar er Jörundur Jökulsson úr Dölunum sem býr nú á höfuðborgarsvæðinu. „Hann er sagnamaður af gamla skólanum. Kann rosalega margar vísur, er hestamaður og syngur mikið. Hann sagði mér gjörsamlega óborganlega sögu með óvæntum endi. Ég grét af hlátri, lokahnykkurinn var svo óvæntur og sterkur.“ 

Þriðji viðmælandinn var svo tæplega þrítug kona sem deildi með Brynju leit sinni að föður sínum sem hún hafði aldrei þekkt. „Þetta er einmitt venjulegt fólk, en auðvitað eru þau ekkert venjuleg, þau eru bara stórbrotin.“

Brynja sjálf er ekkert venjuleg, hún hefur verið búsett erlendis undanfarið og lagt stund á doktorsnám í Cambridge sem hún lauk í mars. „Ég er núna í rannsóknarverkefni þar til þriggja ára. Er að rannsaka hvers vegna það eru kvæði í Íslendingasögunum.“

Guðmundur Pálsson og Júlía Margrét Einarsdóttir ræddu við Brynju Þorgeirsdóttur í Síðdegisútvarpinu.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Það eina sem fer í gegnum hugann er „ekki deyja“

Heilbrigðismál

Mannlífið í New York nú á við Jónsmessunótt í Reykjavík

Tónlist

Fundu ástina í gegnum Bowie

Umhverfismál

Dúfurnar ómissandi hluti af mannlífinu