Stórsigur Skagamanna á Seltjarnarnesi

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Stórsigur Skagamanna á Seltjarnarnesi

12.07.2020 - 18:52
Sjötta umferð Pepsi Max-deildar karla í fótbolta hófst í dag er nýliðar Gróttu tóku á móti ÍA á Seltjarnarnesi. Þar var sigur Skagamanna aldrei í hættu.

Grótta var með fjögur stig í 10. sæti deildarinnar fyrir leikinn eftir að liðið vann sinn fyrsta sigur í efstu deild, 3-0 á Fjölni, í miðri viku. ÍA var aftur á móti með sjö stig í fimmta sæti í kjölfar 2-2 jafnteflis við HK.

Það fór fjörlega af stað á Nesinu í dag er Viktor Jónsson kom ÍA í forystu eftir aðeins fjögurra mínútna leik með skalla eftir fyrirgjöf Halls Flosasonar. Skallinn var laus og hefði Hákon Rafn Valdimarsson, markvörður Gróttu, þar átt að gera betur. Tæpum tíu mínútum síðar tvöfaldaði Stefán Teitur Þórðarson forystu ÍA þar sem Skagamenn virtust hafa lítið fyrir markinu gegn máttlausri vörn Gróttumanna.

Á 18. mínútu leiksins kom þriðja mark ÍA sem skorað var af Brynjari Snæ Pálssyni og þá varð 3-0 að 4-0 þegar Viktor Jónsson skoraði sitt annað mark tíu mínútum fyrir leikhlé, enn á ný eftir slapplegan varnarleik heimamanna.

4-0 var staðan í leikhléi og eftir það tók við vægast sagt tíðindalítill síðari hálfleikur. Skagamenn, með örugga forystu, drápu leikinn algjörlega og andlausir Gróttumenn höfðu fá svör. 4-0 sigur Skagamanna því niðurstaðan.

Með sigrinum fer ÍA upp í 2. sæti deildarinnar með tíu stig, aðeins stigi frá toppliði Breiðabliks. Grótta er sem fyrr með fjögur stig í 10. sætinu tveimur stigum frá fallsæti og þremur frá botninum.