Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

„Stelpurnar hafa notið sín alveg sérstaklega vel“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

„Stelpurnar hafa notið sín alveg sérstaklega vel“

12.07.2020 - 11:56
Síðustu leikir símamótsins í knattspyrnu fara fram í dag, en mótið var með breyttu sniði í ár vegna fjöldatakmarkana. Jóhann Þór Jónsson, formaður barna- og unglingaráðs Breiðabliks, segir mótið hafa gengið framar vonum.

Símamótið í knattspyrnu fyrir stúlkur í fimmta til sjöunda flokki er stærsta knattspyrnumótið á landinu en keppendur eru 2.400. Leikirnir fara fram á völlum á félagssvæði Breiðabliks.

Áhorfendum var skipt upp í hólf til að tryggja að ekki kæmu saman fleiri en fimm hundruð. „Hjá okkur hefur skipting milli hólfa gengið því sem næst fullkomlega eftir því sem var lagt upp með,“ segir Jóhann. „Miðað við þann fjölda liða sem við stilltum upp í hverju hólfi teljum við að við höfum verið vel innan þeirra fimm hundruð manna marka sem talað var um.“ Hann segir foreldra, þjálfara og aðra aðstandendur hafa staðið sig vel við að fylgja leiðbeiningum. 

Fjöldatakmarkanir ekki haft áhrif á keppendur

Aðspurður hvort fjöldatakmarkanir hafi haft mikil áhrif á keppendurna segir hann svo ekki vera.  „Nei, sem betur fer held ég að stelpurnar hafi ekki fundið fyrir neinum áhrifum af þessum ráðstöfunum okkar. Við erum í rauninni að spila þrjú minni fótboltamót. Við erum að spila eitt mót niðri í Fagralundi sem samsvarar því sem fer fram á Bæjarmótinu í Eyjum. Þar eru um 900 stelpur að spila. Í smáranum erum við að spila sem samsvarar einu N1 móti, með 1.600 stelpur. En því skiptum við niður í þrjú hólf“.

Hann segir að keppendum hafi líkað fyrirkomulagið vel. „Ég veit að fimmta flokks stelpurnar hafa notið sín alveg sérstaklega vel niðri í Fagralundi, þar sem þær fá að vera út af fyrir sig.“

Mikil vinna fyrir skipuleggjendur að fylgja reglum

„Fyrir okkur sem skipuleggjum mótið hefur þetta verið umtalsvert meiri vinna. Allir þeir sem hafa komið hérna að, hvort sem það er bærinn, bæjarstarfsmenn, vallarstarfsmenn, sjoppustarfsmenn, eða Síminn, okkar styrktaraðili. Það hafa allir þurft að leggja umtalsvert mikið á sig til að láta þetta ganga upp,“ segir Jóhann.

Tengdar fréttir

Íslenski fótboltinn

Gleði og fjör á Símamótinu

Íslenski fótboltinn

Sjáðu fjörið á Símamótinu í Kópavogi

Íþróttir

FH, Breiðablik og Stjarnan unnu Símamótið