Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Staða hinsegin fólks í Póllandi fer versnandi

Mynd: RÚV / RÚV
Staða hinsegin fólks í Póllandi hefur hríðversnað síðustu mánuði, segir formaður pólskra baráttusamtaka. Samlandar hennar séu farnir að hvetja til þess að útrýmingarbúðir nasista verði opnaðar aftur.

Julia Maciocha, formaður pólskra baráttusamtaka fyrir réttindum hinsegin fólks, segir ótrúlegt hversu hratt og mikið staða þeirra hefur versnað síðustu mánuði. Samlandar hennar séu farnir að hvetja til þess að útrýmingarbúðir nasista verði opnaðar aftur svo hægt sé að myrða hinsegin fólk. 

Andzrej Duda, forseti Póllands, og frambjóðandi stjórnarflokksins Laga og réttlætis, hefur gert hinsegin fólk að kosningamáli. Hann telur það ógn við pólsk gildi að fólkið fái að gifta sig og ættleiða börn. 

Stjórnarflokkurinn Lög og réttlæti gerði það sama fyrir þingkosningarnar í fyrra. Þá fór fréttastofa  til Varsjá og hitti Maciocha. Þá var þungt í henni hljóðið en hún segir stöðu hinsegin fólks enn verri í dag. Stjórnmálin hafa klofið samfélagið í Póllandi síðustu ár. Maciocha segir að gjáin milli fólks dýpki stöðugt. 

Í fyrra tilnefndi Varsjárborg Maciocha sem konu ársins fyrir baráttu sína. Hún segir að vissulega sé afar erfitt og lýjandi að standa í baráttu sem ríkisstjórn og forseti beiti sér markvisst gegn. Þau ætli þó ekki að gefast upp og gott gengi Rafal Trzaskowski virðist hafa gefið þeim vonarglætu um breytingar. 

Forsetakosningar í Póllandi fara fram í dag.