Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Saga um aðferð við að skrifa ævisögu

Mynd: RÚV / RÚV

Saga um aðferð við að skrifa ævisögu

12.07.2020 - 09:02

Höfundar

„Þetta er mjög sérstök bók. Þetta er ævisaga, ævisaga móður Handkes,“ segir Árni Óskarsson þýðandi bókarinnar Óskabarn ógæfunnar sem Nóbelsverðlaunhafinn Peter Handke sendi frá sér árið 1972 og bætir við: „En þetta er líka saga um aðferð við að skrifa ævisögu.“

Peter Handke skrifaði sögukornið um líf móður sinnar, Óskabarn ógæfunnar, á innan við ári eftir að hún lést, en Maria Handke féll fyrir eigin hendi árið 1971. Í bókinni greinir Handke frá því að strax við jarðarförina hafi honum verið ljóst að hann ætti eftir að skrifa þessa bók og að honum hefði verið mikilvægast af öllu við skrifin að bjóða hvers kyns klisjum ævisagna kvenna í sömu stöðu og móðir hans. „Hann er ekki bara að segja sögu móður sinnar,“ segir Árni Óskarsson, „heldur er hann kannski fyrst og fremst að lýsa svigrúminu sem hún hafði í lífi sínu: hún fékk engin tækifæri, var ekkert og varð ekkert, sem er saga heilu kynslóða kvenna. Þannig þræðir hann einstigi á milli hins almenna og hins persónulega og samtímis einstigi milli hans sjálfs sem höfundar og móðurinnar sem hann er að skrifa um.“

Hér er lýst fátækt og hörku hins daglega lífs og þessar aðstæður skoðaðar í ljósi þeirra klisja sem að jafnaði hefur verið beitt í slíkum skrifum og eru í algerri mótsögn við þá upphafningu alþýðunnar sem nasistar boðuðu.

„(Þar) fékk lífið form og innan þess fannst fólki það vera í góðum höndum og þó frjálst. Takturinn varð tilvistarlegur, sem föst regla. Sérhagsmunir víkja fyrir almannahag. Heildin hefur forgang. (...) Hana hafði ætíð langað til að vera stolt af einhverju; þar eð nú var allt sem gert var á einhvern hátt mikilvægt varð hún verulega stolt ekki af neinu sérstöku heldur var þetta almennt stolt sem var afstaða og tjáning langþráðrar lífsskynjunar. Hún hafði eftir sem áður engan áhuga á stjórnmálum.“

Óskabarn ógæfunnar er ljóðræn og afhjúpandi frásögn um líf einnar konu og margra á fyrri hluta 20. aldar en einnig er þetta saga um sorg og sögulegar aðstæður.

Peter Handke er 20. aldar höfundur, fæddur í miðri heimsstyrjöldinni síðari af slóvensku og þýsku bergi brotinn en fæddur og alinn upp í Austuríki. Að menntaskólanámi loknu gerði hann í nokkur ár tilraun til að stúdera lögfræði, skáldskapur reyndist hins vegar hans köllun og þegar árið 1966 birtust fyrstu tvö verk hans. Annars vegar skáldsagan Die Hornisse – geitungurinn og leikritið Die Publikumsbeschimpfung eða Svívirtir áhorefnda sem Kristín Jóhannesdóttir leikstýrði í Stúdentaleikhúsinu árið 1983 í þýðingu Bergljótar Kristjánsdóttur. Handke hefur sent frá sér ótal verk skáldsögur, leikrit, kvikmyndahandrit, ferðasögur, ritgerðarsöfn en aðeins tvö þessara verka hafa komið út á íslensku fyrir utan áðurnefnd leikrit, Barnasaga sem kom út í þýðingu Péturs Gunnarssonar árið 1987 og nú Óskabarn ógæfunnar sem bókaútgáfan Ugla sendi frá sér fyrir stuttu í þýðingu Árna Óskarssonar.